140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Eins og gengur í umræðum af þessu tagi koma menn víða við, á það bæði við um umræður í þingsal og eins úti í þjóðfélaginu. Áður hefur verið vikið að því í þessari umræðu að mismunandi skilningur virðist vera á því hvaða afleiðingar það mál sem við erum að ræðum hafi. Við getum orðað það svo að nái sú tillaga sem hér liggur fyrir fram að ganga sé gert ráð fyrir því að spurt verði í þjóðaratkvæðagreiðslu í haust um það hvort fólk vilji að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Út af fyrir sig er þetta ekki óskýr spurning, en hún hefur þann annmarka að á sama tíma og verið er að undirbúa atkvæðagreiðslu um þessa spurningu er líka vinna í gangi sem hlýtur að miða að því að breyta þessum tillögum stjórnlagaráðs. Þetta er dálítið undarleg röð á hlutunum hvernig sem á það er litið.

Ég held að flestir sem hefðu nálgast þetta viðfangsefni hefðu sagt sem svo: Ef á annað borð á að vera þjóðaratkvæðagreiðsla hlýtur hún að fara fram þegar tillögurnar eru fullbúnar en ekki á nákvæmlega sama tíma og verið er að vinna í texta þeirra.

Ég held að jafnvel harðsvíraðir stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar hljóti að átta sig á því að þetta er sérkennileg röð á hlutunum. Ef við gefum okkur að eðlilegt sé að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um nýja stjórnarskrá, af hverju er ekki stefnan sett á að efna til þeirrar atkvæðagreiðslu þegar drög að nýrri stjórnarskrá eru tilbúin, ekki meðan þau eru í vinnsluferli heldur þegar þau eru tilbúin?

Ég minni á að með sérstakri ákvörðun hefur meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nýlega óskað eftir því við tiltekinn hóp lögfræðinga að þeir fari að vinna í texta þessara tillagna á sama tíma og verið er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er svolítið sérkennilegt og segir okkur að atkvæðagreiðslan verður um drög sem er kannski búið að ljúka einhverri vinnu við, kannski er vinnan enn í gangi þegar atkvæðagreiðslan fer fram. Ég held að menn hljóti að átta sig á því að það er verið að gera hlutina í vitlausri röð.

Athugum hvernig þetta ferli virðist vera hugsað. Nú tek ég það fram að ferlið hefur náttúrlega verið að breytast jafnóðum meðan á atburðarásinni hefur staðið. Það er ætlast til þess að þingið taki ákvörðun um það núna í maí að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í haust um tillögur stjórnlagaráðs, hvort tillögurnar í heild eigi að vera grundvöllur að frumvarpi og síðan um nokkrar tilteknar spurningar sem ég get fjallað um í síðari ræðum. Verði þessi tillaga samþykkt fer í gang undirbúningur undir þjóðaratkvæðagreiðslu í haust lögum samkvæmt með kynningu á tillögunum og með umræðum um þær og annað þess háttar. Á meðan á þeirri kynningu stendur og á meðan þær umræður fara fram í þjóðfélaginu vinna nokkrir lögfræðingar á vegum meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að því að laga tillögurnar til. Það hlýtur að vera tilgangurinn með því að fá þá til starfa, að laga tillögurnar til. Hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar talar um að þetta eigi bara að vera lagatæknilegar breytingar og lagfæringar og eitthvað þess háttar, en ég minni á það sem ég sagði trúlega hér í fyrradag að í lagatexta, ég tala nú ekki um stjórnarskrártexta, getur hvert orð skipt máli varðandi túlkun, réttaráhrif og annað þess háttar. Við skulum ekki gera lítið úr því. Jafnvel það sem kallað er lagatæknileg yfirferð getur leitt til breytinga sem geta haft mikil áhrif á afstöðu fólks til þess hvort það vill samþykkja (Forseti hringir.) tillögurnar eða ekki.

Hæstv. forseti. Það vinnulag sem lagt er upp með, (Forseti hringir.) hvernig sem á það er litið og hvaða afstöðu svo sem menn hafa til tillagna stjórnlagaráðs, er (Forseti hringir.) sérkennilegt, einkennilegt og furðulegt. (Forseti hringir.)