140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir tækifærið til að ræða þessa breytingartillögu, sérstaklega vegna þess að ég hef ekki átt kost á því að gera það áður í þessari umræðu.

Ég vil fyrst taka tvennt fram. Annars vegar eru þær breytingartillögur sem við hv. þm. Ólöf Nordal berum fram ekki lagðar fram vegna þess að við höfum sérstaka trú á þeirri leið sem lagt er upp með í tillögum meiri hlutans. Eins og margoft hefur komið fram leggjumst við gegn því að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu með þeim spurningum sem meiri hlutinn leggur upp með. Á hinn bóginn höfum við sagt að ef við verðum undir í því meginmáli teljum við til bóta ef hægt er að bæta við spurningum um önnur álitamál sem skipta verulega miklu máli og eru ekki inni í þeim spurningum sem meiri hlutinn leggur til.

Við teljum að það sé ótvírætt meðal helstu álitamála sem kemur til með að reyna á í stjórnskipunarmálum Íslendinga á næstu árum hvort menn vilji heimila framsal til alþjóðastofnana. Þá, svo að ég fari út í fínni blæbrigði þess máls, er auðvitað hægt að orða slíkt ákvæði með mjög mismunandi hætti. Ég játa að breytingartillaga okkar, eins og hún liggur fyrir, nær ekki utan um það. Hún er í raun svo opin, eins og aðrar breytingartillögur í þessu máli og aðrar tillögur um spurningar, að menn geta túlkað hana dálítið hver með sínum hætti.

Ég er persónulega þeirrar skoðunar að varast beri valdaframsal til alþjóðlegra stofnana. Ég held að við verðum að rifja það upp að EES-samningurinn er einmitt formaður þannig að ekki sé um formlegt valdaframsal að ræða. Fræðimenn hafa síðan deilt um það hvort valdaframsal hafi átt sér stað í raun. En formið á EES-samningnum var frá upphafi þannig að gert var ráð fyrir því (Forseti hringir.) að ekkert vald væri framselt formlega, að ákvarðanir um (Forseti hringir.) tiltekin mál væru alltaf hjá íslenskum aðilum á endanum.