140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að þessar aðstæður þarf að jafna. Ég er þar af leiðandi mjög hlynntur þeirri breytingartillögu sem þingmaðurinn var að upplýsa um og fara yfir.

Fyrri spurning í fyrra andsvari þingmannsins er vitanlega tengd þessu. Ef farið er að jafna atkvæðavægið á þennan veg þá þarf að gera ákveðnar ráðstafanir á hinn veginn líka. Það er óeðlilegt, að mínu viti, að allt vald og öll þau gæði sem þjóðin aflar sér á hverjum degi verði meira og minna eftir í Reykjavík og sé svo útdeilt þaðan með einhverjum hætti.

Ég á eftir að kynna breytingartillögu sem mælir fyrir jöfnun útgjalda sem er mjög í anda þess sem hv. þingmaður talar um hér. Ég tel það á sama hátt mjög mikilvægt að fá umræðu um slíka tillögu ef jafna á einhverju á þennan veg, sem er að mínu viti á kostnað landsbyggðarinnar.

Hv. þingmaður talaði um að hann væri mjög hlynntur því að nota þjóðaratkvæðagreiðslur og að hann beri fulla virðingu fyrir því. Ég hef hins vegar ákveðnar efasemdir um að þær eigi að nota í miklum mæli. Þær eiga að vera eins konar öryggisventill, held ég, sem á að nýta þegar á þarf að halda og vissulega á þjóðin að geta kallað eftir því með einhverjum hætti. Við þurfum að mynda okkur skoðanir á því hvort miða eigi við 10, 15 eða 20%, eða jafnvel meira, sem talað er um í spurningunum sem á að leggja fyrir þjóðina. Ég hef efasemdir um svissnesku leiðina, svo að dæmi sé tekið, þar sem allir skapaðir hlutir eru settir í atkvæðagreiðslu, en það er betra að útiloka ekki neitt fyrir fram í því.

Ég velti því hins vegar fyrir mér — hv. þingmaður nefndi það ekki en það hefur komið fram í umræðum — hvers vegna í ósköpunum þeir sem láta sér svona annt um þjóðaratkvæðagreiðslur skuli ekki hafa samþykkt að Evrópusambandsferlið yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu í upphafi.