140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðu minni í dag náði ég ekki að klára það sem ég hafði ætlaði að fara yfir. Ég var búinn að fara yfir nokkuð um aðdragandann og það sem að mínu viti hefur farið úrskeiðis í þeim efnum hjá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og meiri hluta Alþingis. Ég fór líka yfir stefnu okkar framsóknarmanna að nokkru leyti og var kominn að því að fjalla um ýmis hliðaráhrif og síðan einstakar greinar og breytingartillögur.

Mig langar þó í upphafi að ítreka þá skoðun mína að það hefði verið eðlilegasta málsmeðferðin við þetta mál að skýrslan sem stjórnlagaráð skilaði til forseta Alþingis og var síðan send stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að sú nefnd hefði farið yfir þá skýrslu eins og aðrar skýrslur sem berast nefndum og hún hefði síðan sagt álit sitt á skýrslunni og komið með tillögur til leiðbeiningar og úrbóta um með hvaða hætti þingið ætti að afgreiða skýrsluna.

Eins og fram hefur komið þá nefndi fulltrúi okkar framsóknarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, það á fyrsta fundi nefndarinnar að greinargerðin sem fylgdi með væri ófullnægjandi. Ég fór aðeins yfir það í fyrri ræðu minni og benti á tvö dæmi, annars vegar náttúruauðlindagreinina og hins vegar greinina um sveitarstjórnarmál, þar sem í raun má halda því fram að tillögur stjórnlagaráðs séu engar breytingar frá núverandi stjórnarskrá, sérstaklega í tilvikinu með sveitarstjórnargreinina, heldur aukinn texti, flókinn texti sem segir ekkert meira. Aftur á móti komi fram misvísandi skilaboð í greinargerðinni og það var nefnt til dæmis að dómstólar gætu lent í vandræðum með þá greinargerð.

Eins og ég sagði í upphafi þessarar málsmeðferðar benti fulltrúi okkar framsóknarmanna á að greinargerðin væri ófullnægjandi og það þyrfti að lesa þetta yfir til samræmis og koma með lögfræðilegt álit og gera í raun og veru greinargerðina upp á nýtt þegar búið væri að lesa saman einstakar greinar. Ég hefði talið að það hefði verið eðlileg afgreiðsla af hendi meiri hlutans að afgreiða skýrsluna með þeim hætti til þingsins og leggja svo til að fengnir yrðu sérfræðingar til að fara yfir hana áður en lengra væri haldið. Síðan gæti það alveg komið til greina að mismunandi útfærslur væru á ákveðnum greinum sem menn væru ekki sáttir við og vildu gjarnan fá leiðsögn þjóðarinnar um og gætu þá sent það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég vil líka nefna það og tók þess vegna skýrslu þingmannanefndarinnar með mér, frú forseti, þar sem ein af niðurstöðum þeirrar nefndar, og sá sem hér stendur tók þátt í störfum nefndarinnar, var að endurskoða þyrfti löggjöf á ýmsum sviðum og þar á meðal ætti að taka stjórnarskrá lýðveldisins Íslands til endurskoðunar, hvort þar væri eitthvað sem þyrfti að breyta og það er klárlega eitthvað og það hefur verið mín skoðun lengi, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni og er stefna Framsóknarflokksins, að gera þurfi á henni ákveðnar breytingar. En ég vil segja það hér svo það sé alveg skýrt að það var aldrei meining þingmannanefndarinnar og þingsályktunartillögunnar sem samþykkt var 63:0 og kom hvergi fram að stjórnarskráin per se sem er í gildi í dag hefði verið völd að hruninu eða eitthvað í henni hefði valdið því að hér varð bankahrun. Það kom hins vegar skýrt fram hverjir báru þar ríkustu ábyrgð þó að enginn vildi kannast við sína ábyrgð. Ég fór jafnframt yfir það að í þessari nýju tillögu frá stjórnlagaráði séu engin svör við því þar af leiðandi að ný stjórnarskrá muni koma í veg fyrir eða breyta þeim forsendum að hér gæti ekki orðið hrun aftur ef stjórnsýslan bilar eins og hún bilaði, eftirlitsstofnanir bila, og uppi sé sú spenna í alþjóðasamfélaginu sem raun bar vitni og til staðar séu óprúttnir aðilar sem stjórni fjármálalífinu sem geti keyrt fram af hengifluginu eins og við þekkjum.

Hins vegar er rétt að nefna það líka að í ýmsum umsögnum sem komu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ég hef lítillega kynnt mér hafa menn einmitt bent á að greinargerðin sé ófullnægjandi og margt þar sem þurfi að skoða. Í minnisblaði um samþykkt þjóðarinnar á nýrri stjórnarskrá, sem er undirrituð 26. mars 2012 af prófessor Björgu Thorarensen, er farið ágætlega yfir með hvaða hætti þetta var gert 1944 og aðdragandann að því, hvernig við gætum notað þá leið okkur til leiðsagnar til að ná beinu sambandi við þjóðina, að þjóðin geti sjálf haft bein áhrif á það og greitt atkvæði um stjórnarskrána og þetta sé stjórnarskrá allrar þjóðarinnar.

Það er áhugavert að skoða niðurstöðuna, frú forseti, í atkvæðagreiðslunni en í atkvæðagreiðslunni tóku 98,61% kjósenda í landinu þátt og af þeim sem tóku afstöðu var yfir 95% eða 95,04% sem greiddu atkvæði með stjórnarskránni en aðeins 1,44% gegn henni. Jafnframt voru þá greidd atkvæði um sambandsslitin og það var enn meiri samhljómur meðal þjóðarinnar um það.

Ég segi þetta núna vegna þess að við erum enn og aftur komin með risastórt mál, sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir bera hingað inn, sem menn hafa ekki borið gæfu til að vinna í sátt og samlyndi og reyna að ná sem víðtækastri sátt um, ekki einu sinni um stjórnarskrána, ekki einu sinni um grunnreglur samfélagsins. Reyndar hefur aðalumræðan snúist um formið og hinar tæknilegu útfærslur og þar hefur sannarlega verið talsvert klúður en fyrir vikið er ólíklegt að önnur eins samhljóða niðurstaða fáist í atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá á meðan ekki næst meiri samhljómur, hvorki inni á þingi né úti í samfélaginu, um breytingarnar.

Ef ég vík hér aðeins að lokaorðunum í þessu minnisblaði, með leyfi forseta, þá stendur hér:

„Nú er til umfjöllunar tillaga um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort tillaga stjórnlagaráðs skuli lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga.“ — Þetta er óbein tilvitnun í fyrstu spurninguna sem meiri hlutinn lagði fyrir í þingsályktunartillögunni. Og svo áfram, með leyfi forseta: „Slík atkvæðagreiðsla sem hefur það markmið að leita leiðsagnar frá kjósendum getur ekki komið í staðinn fyrir að þjóðin taki beina afstöðu til nýrrar stjórnarskrár með bindandi niðurstöðu, með öðrum orðum samþykki hana eða hafni henni, eftir að Alþingi hefur samþykkt hana í endanlegri mynd.

Án tillits til þess hvort ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram um tillögur stjórnlagaráðs hlýtur Alþingi við áframhaldandi vinnslu frumvarps til nýrrar stjórnarskrár að búa svo um hnútana að réttur þjóðarinnar sem hins endanlega stjórnarskrárgjafa verði tryggður, líkt og gert var árið 1944.“

Ég held að hér séum við komin með málið í hnotskurn um hvaða vegferð við erum á þegar það hefur verið upplýst að nú þegar hafi verið leitað til sjö sérfræðinga til að yfirfara það sem hefði þurft að gera strax en á sama tíma á að fara fram eins konar skoðanakönnun, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, og þær spurningar sem voru lagðar fram af meiri hlutanum eru verulega umdeildar. Þær voru ekki nægilega vel unnar í upphafi. Þær hafa lagast, það má engu að síður spyrja margra spurninga út í einstakar greinar. Þeim er ekki svarað öllum í nefndarálitinu hvað þá öllum þeim breytingartillögum sem hafa verið lagðar fram síðar og meiri (Forseti hringir.) hlutinn skuldar þinginu og þjóðinni það að koma hér upp og svara því hvort þær séu jafnótækar og ótengdar eins og meiri hlutinn taldi tillöguna um að greiða atkvæði um Evrópusambandsaðildarferlið.

Frú forseti. Ég lýk hér máli mínu, tími minn er búinn. Ég náði ekki að fara yfir (Forseti hringir.) einstaka tillögur þannig að ég bið um að verða settur aftur á mælendaskrá.