140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála þingmanninum um að stjórnarskrárbreytingar verður að gera í sem víðtækastri sátt eins og stjórnarskrárbreytingar undanfarinna ára hafa verið gerðar. Nú eru aðrir við stjórnvölinn í Alþingishúsinu sem fara fram með hvert málið í ófriði en ekki friði þannig að þetta kemur svo sem ekki á óvart. En að leyfa sér að blanda saman jafnafgerandi og birtist í þessari þingsályktunartillögu stefnuskrá þriggja flokka og ætla að láta það í þjóðaratkvæðagreiðslu er alveg hreint til skammar en sýnir hug þessarar ríkisstjórnar til Alþingis og landsmanna. Um stefnuskrá flokkanna er kosið í alþingiskosningum en ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Annað sem virðist líka mjög dapurlegt er að það er eins og enginn í ríkisstjórnarflokkunum átti sig á því hvað stjórnarskipunarvaldið raunverulega er og hvernig stjórnarskrá er breytt. Þetta mál er keyrt áfram af miklu offorsi. Stjórnarskipunarvaldið er langtum stærra en löggjafarvaldið. Frumvarp að stjórnarskipunarlögum er samþykkt á þingi, 63 þingmenn samþykkja það, síðan er tafarlaust boðað til kosninga og nýir þingmenn sem taka sæti á Alþingi ásamt þeim sem halda áfram samþykkja sama frumvarp og hafa það sem sitt fyrsta verki þegar þing kemur saman. Þarna getum við fengið stjórnarskipunarvald upp á 90–100 manns eftir því hvað endurnýjast mikið í kosningum. Ef til dæmis hefði verið kosið um stjórnarskrárbreytingar í síðustu alþingiskosningum hefðu hátt í 90 þingmenn komið að þessum (Forseti hringir.) stjórnarskrárbreytingum. Þess vegna er alveg fáránlegt að þetta mál skuli vera keyrt núna með þessum hætti (Forseti hringir.) vegna þekkingarleysis.