140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en hann var þar að ræða hluti sem ég vara dálítið við. Í fyrsta lagi sagði hann að þetta væri leikur úr kaffihúsum þar sem menn spjalla um hluti. Hann er væntanlega að vísa til þess að umræða um málin fari fram einhvers staðar og kannski oft og tíðum heimspekileg. Hann kom inn á hugtökin þjóð, þjóðareign og sameign þjóðar. Hvað þýða þau? Þetta eru hugtök sem mér finnst eiginlega ekkert hafa verið rædd.

Ég lenti í því þegar ég samdi frumvarp um að dreifa kvótanum á þjóðina að ég varð að skilgreina hvað væri þjóð. Til dæmis maður sem hefur búið erlendis alla sína ævi en er með íslenskan ríkisborgararétt, kann ekki íslensku og veit ekkert um íslenska pólitík, íslenskt efnahagslíf eða íslenskt þjóðfélag yfirleitt. Á hann að tilheyra þjóðinni?

Útlendingur sem hefur búið á Íslandi í 40 ár og kann íslensku og uppfyllir öll skilyrði, hefur borgað skatt og skyldur á Íslandi og á hér réttindi, er hann hluti af þjóðinni? Og hvar drögum við mörkin, hvar setjum við mörkin við það hvað er þjóð og hvað ríki og hverjir tilheyra þessari þjóð? Þetta verðum við að ræða fyrst. Við getum ekki sett svona hugtök í stjórnarskrá án þess að vita hvað átt er við með þeim, til dæmis hugtakinu íslensk þjóð.

Ég leysti vandann þannig að þeir sem hafa verið skattskyldir á Íslandi í fimm ár séu íslensk þjóð og börn þeirra. Þetta finnst mér að þurfi að ræða mjög ítarlega.

Svo kom hv. þingmaður inn á að til að leysa vandann, frú forseti, þyrftum við bara að segja íslenska ríkið. Gott og vel. Ég ætla kannski að koma inn á það í seinna andsvari.