140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það og það má ekki skilja orð mín þannig að ég telji ekki þörf á að breyta stjórnarskránni. Það hefur einmitt verið stefna okkar framsóknarmanna að nauðsynlegt sé að fara í slíkt. Í kjölfarið á hruninu var eðlilegt að menn horfðu til þess að endurskoða samfélagið og hvort við gætum breytt ýmsu. Þegar menn fóru að skoða stjórnarskrána eins og hún liggur fyrir í dag og síðan þær tillögur sem hafa komið er kannski ekki sá munurinn á að við séum að breyta verulega mikið einhverju í sambandi við samfélagið.

Það sem við höfum gagnrýnt einna helst er að vinnan hafi ekki verið í nægilega föstum skorðum, hún hefur verið svolítið úti um allt. Það hefur verið ótrúlegt klúður á leiðinni með kosningu til stjórnlagaþingsins eins og við vildum að yrði og annað í þeim dúr. Niðurstaðan er síðan, eins og fram hefur komið, tillaga sem er eins og hv. þingmaður nefndi kannski ekki nógu mikil samfella, menn væru ekki búnir að vinna vinnuna nægilega vel og hefðu ekki gefið sér nægan tíma í að fjalla um grunnlög samfélagsins.

Þá er það mjög sérkennilegt, eins og þingmaðurinn nefndi, að ákvæði er varða valdsvið forseta skuli hvergi koma fram í þeim spurningum sem meiri hlutinn leggur til þar sem það hefur einmitt verið eitt af þeim efnum sem menn hafa talið nauðsynlegt að fjalla um. Það væri því áhugavert að heyra aðeins dýpra álit þingmannsins á því.

Síðan nefndi þingmaðurinn stuttlega tillögu sína, gerði það í gær líka. Veit hann til þess að hún hafi fengið umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hvort sérfræðingar á þessu sviði hafi fjallað um hana, hvernig hún gæti virkað og þá í samanburði við tillögu Bjargar Thorarensen prófessors?