140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Í seinna andsvari mínu ætla ég að reyna að fá stutt svör frá hv. þingmanni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur oft og tíðum verið gagnrýndur fyrir að vilja ekki breyta stjórnarskránni. Til dæmis hefur það verið í verulegri andstöðu við okkur framsóknarmenn sem höfum lagt á það ríka áherslu og vildum meðal annars að það yrði kosið til bindandi stjórnlagaþings.

Því vil ég spyrja hv. þingmann nokkurra beinna einfaldra spurninga, ég veit að hv. þingmaður hefur ákaflega skamman tíma til að svara þeim en reynir hvað hún getur.

Vill Sjálfstæðisflokkurinn breyta stjórnarskránni og hvaða atriðum þá helst?

Vill Sjálfstæðisflokkurinn tryggja eignarrétt þjóðarinnar á náttúruauðlindum? Ég vísa til að mynda til fiskveiðistjórnarfrumvarpsins. Við framsóknarmenn höfum lagt ríka áherslu á eitt ákvæði þar inni. Ég veit vel að um ákvæðið sjálft þurfa að vera skýr ákvæði, hvort við erum að tala um óskilgreinda þjóðareign eða ríkiseigna eða eitthvað slíkt, en vill Sjálfstæðisflokkurinn tryggja slíkan eignarrétt á náttúruauðlindum, nytjastofnum í hafinu í kringum okkur, í stjórnarskrá?