140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi að við ættum að velta því fyrir okkur hvernig við fengjum sem gagnlegastar upplýsingar eða nýtanlegastar út úr þessu ferli. Ég er sammála því, jafnframt því mati að það sé mjög óljóst hvað hægt verði að gera við það sem kemur út úr þessari atkvæðagreiðslu hver svo sem niðurstaðan verður. Gagnlegra væri að láta lögfræðilegu yfirferðina fara fram og leyfa fólki svo að kjósa um eiginlegar tillögur.

Fyrst þetta gæti orðið raunin hef ég áhyggjur af því að við munum ekki aðeins fá takmarkaðar upplýsingar út úr þessu, þetta verði ekki bara kostnaðarsöm skoðanakönnun sem skili litlu heldur geti niðurstaðan beinlínis skaðað ferlið allt. Það sem ég á við með því er að ég óttast að tilgangurinn með þessum tillögum sé meðal annars sá hjá ríkisstjórninni að verða sér úti um nokkurs konar óútfylltan tékka til að gera síðan þær breytingar sem ríkisstjórnin vill ná fram á stjórnarskránni án frekara samráðs.

Ég nefni sem dæmi atriði sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni varðandi persónukjör. Spurning 3 snýst um það. Þar segir, með leyfi forseta:

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

Þetta er auðvitað mjög óljós spurning en þarna er í raun verið að biðja um já-svar. Við skulum gera ráð fyrir því að það verði niðurstaðan. Þá óttast ég að ríkisstjórnin muni túlka það sem svo að hún sé búin að fá opinn óútfylltan tékka til að leggja fram sínar eigin tillögur um persónukjör og segi: Þessar tillögur eru í samræmi við vilja þjóðarinnar. Með öðrum orðum, í stað þess að almenningur fái að segja álit sitt á (Forseti hringir.) raunverulegum ákvæðum sé ríkisstjórnin að biðja um leyfi til að útfæra hlutina sjálf.