140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru mjög áhugaverðar pælingar og eiga fullan rétt á sér. Það er ekki bara í þessu máli, rammaáætlunin er líka til að kaupa atkvæði þingmanna, henni var breytt til þess. Og Stjórnarráðið var líka til að kaupa atkvæði einhverra með auðlindaráðuneytinu og svo var allt skilið eftir opið.

Ég tel að það mál sem við ræðum hér sé sett fram að kröfu hv. þingmanna Hreyfingarinnar, Birgittu Jónsdóttur, Margrétar Tryggvadóttur og Þórs Saaris, og ég sakna þess mjög illilega, herra forseti, að þau skuli ekki taka þátt í umræðunni og segja af hverju liggur svona mikið á og hvernig þau túlki þessa atkvæðagreiðslu, til dæmis hvað megi breyta miklu og hverju eigi að breyta. Þetta er gert að þeirra kröfu og maður hefði haldið að þau mundu mæta hér og taka þátt í umræðunni til að kjósendur sem fara svo á staðinn og greiða atkvæði í október viti hvað er eiginlega meint með þessu.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er ógagnsætt ferli. Það er eitthvað að gerast í einhverjum herbergjum, reykfylltum kannski, eftir því hvort fólk reykir eða ekki, þar sem verið er að semja um alls konar hluti sem ekki liggja uppi á borðum og gagnsæi skortir. Samt þykjast menn alla tíð vera að tala og vinna með gagnsæi og góða verkstjórn í huga en eru í raun stöðugt að reyna að bjarga lífi ríkistjórnarinnar fyrir horn, með því að koma með rammaáætlun og með því að koma með þetta mál, þannig að hún lifi næstu vikur. Þetta er ekki góð stjórnun á einu landi.