140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi yfir ánægju minni með svör hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um kirkjuna, stöðu hennar bæði í sögulegu samhengi en ekki síður í því samhengi hvað við þurfum og viljum reiða okkur á núna, bæði í nútímasamfélagi og til framtíðar. Þessi umræða eins og með mörg önnur atriði í tengslum við þessa spurningakeppni meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á öll eftir að eiga sér stað, ekki síst á Alþingi. Í gegnum aldirnar hefur oft og tíðum einmitt átt sér stað umræða um stöðu kirkjunnar, um það hvert við erum að fara, um trúna sem slíka. Slík umræða hefur ekki átt sér stað innan húss og finnst mér það miður. Mér finnst menn vera að tipla á tánum í kringum þetta efni og detta í einhvern popúlisma í staðinn fyrir að ræða mikilvægi kristninnar (Forseti hringir.) og kirkjunnar fyrir okkur sem samfélag.