140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg ljóst bæði af þátttöku og þeirri litlu umræðu sem átt hefur sér stað af hálfu stjórnarmeirihlutans og síðan bara af sögunni, ef við horfum á hana, að það mun engu skipta hvað kemur út úr þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Núverandi ríkisstjórn mun bara túlka hana eftir „behag“, svo ég fái að sletta, með leyfi forseta.

Þess vegna segi ég, og það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, að þessar spurningar eru einfaldlega eftir matseðli og kosningapistlum Vinstri grænna, Samfylkingar og Hreyfingar. Þetta er svona samsuða, allir fá eitthvað fyrir sinn snúð, allir geta bent á eitthvað þarna: Sjáiði, ég kom minni spurningu að, mínum sjónarmiðum að. Allt er þetta gert í þágu þessara flokka en ekki í þágu þjóðarinnar sem heildar.

Hvað er mikilvægt að við náum fram í gegnum þessa umræðu um breytingar á stjórnarskránni? Ég hef margoft sagt og við sjálfstæðismenn að við erum ekki á móti breytingum á stjórnarskránni, engan veginn. Við erum bara á móti þessari aðferðafræði sem gerir ekkert annað en að villa um fyrir kjósendum. Við þingmenn fáum núna tölvupósta um að fólk vilji fá að kjósa um stjórnarskrána. Við erum ekki að kjósa um stjórnarskrána hérna. Og enginn, ekki einu sinni forsætisráðherra kemur fram og þorir að segja: Kæru vinir, við erum ekki að kjósa um stjórnarskrána, við erum bara að fá fram skoðun á hinu og þessu og við ætlum að fá niðurstöðuna þannig að við getum túlkað hana okkur í hag, eftir okkar pólitísku niðurstöðu. Út á þetta gengur þetta. Það er verið að slá ryki í augu kjósenda með því að telja þeim trú um að þeir hafi raunverulega eitthvað um þetta að segja með þeirri skoðanakönnun sem væntanlega mun fara fram í haust, ef af verður.

Þess vegna segi ég í ljósi reynslunnar um þetta ákvæði, um þjóðkirkjuna, og hvort það hafi einhverja þýðingu: Ef það verður samþykkt af þjóðinni að það verði óbreytt og við viljum að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju mun núverandi ríkisstjórn (Forseti hringir.) ekkert gera með það. Hún mun ekki fara eftir þessari skoðanakönnun nema það henti henni (Forseti hringir.) og hún kjósi svo.