140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara yfir breytingartillögu, en vegna þess að fjölmiðlar eru farnir að hafa áhyggjur af því hversu löng þessi umræða er orðin vil ég geta þess áður að á t.d. 132. löggjafarþingi talaði núverandi innanríkisráðherra í 35 klukkustundir. Sá er hér stendur er búinn að tala í rúmar 20 klukkustundir frá því að þing kom saman í október. Á 131. löggjafarþingi 2004–2005 talaði hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra í rúmar 28 klukkustundir. Við sjáum það, frú forseti, að það er ekki hægt að segja að þingmenn sem nú eru á þingi séu eitthvað farnir að ógna þessum ræðukóngum en það er ekki endilega til eftirbreytni.

Sú breytingartillaga sem ég ætlaði að nefna, frú forseti, er lögð fram af þeim er hér stendur og hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni og á rætur að rekja til greina í tillögu stjórnlagaráðs, þ.e. 110., 111. og 112. gr. fengu okkur til að velta þessu fyrir okkur. Breytingartillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði sem veitir ríkisvaldi heimild til framsals ákvarðana til annars stjórnvalds um nýtingu auðlinda?“

Það sem við vorum að velta fyrir okkur er að okkur finnst ekki nógu skýrt í tillögum stjórnlagaráðs hvort stjórnvöld á hverjum tíma gætu falið öðru stjórnvaldi, við skulum segja sveitarfélagi eða stjórnvaldi innan Evrópusambandsins, að fara með nýtingu auðlinda. Þá horfum við vitanlega til sjávarauðlindarinnar, við erum líka að horfa til væntanlegrar olíu, sem við finnum vonandi, og allra þeirra auðlinda sem ríkisvaldið er að ráðstafa í dag. Okkur finnst nauðsynlegt að kanna hug þjóðarinnar til framsals á slíku valdi, þ.e. framsals á ráðstöfun nýtingar íslenskra auðlinda, og hvort þjóðinni finnist eðlilegt að unnt verði að gera það með þeim hætti að fela einhverju öðru stjórnvaldi það vald. Ekki skal reynt að draga fjöður yfir það að vitanlega er fyrst og fremst verið að horfa til Evrópusambandsins í því sambandi.

Í tillögum stjórnlagaráðs er talað um þjóðréttarsamninga og ýmislegt þess háttar. Eftir því sem ég best veit er það þannig að þegar ríki er gengið í Evrópusambandið er það í raun orðið aðili að ákveðnum stofnunum þar sem ákveðið framsal valds á sér stað. Ég er kannski að upplýsa um þekkingarleysi á þessu sviði en ég velti því fyrir mér hvort slíkt geti átt við um nýtingu á auðlind, þ.e. að stjórnvöld geti framselt auðlindastjórnun eða auðlindanýtingu eitthvert annað. Mér finnst þetta mikilvægt, ekki síst í ljósi þeirra tillagna sem stjórnlagaráð leggur fram þar sem verið er, að mínu viti, að auðvelda og einfalda allt framsal á slíku valdi. Um það geta eðlilega verið skiptar skoðanir, en ég held að mikilvægt sé að nota þá skoðanakönnun sem gera á í október til að spyrja akkúrat um þetta mál.

Fyrir mér er þetta að mörgu leyti prinsippmál. Ég er ekki hrifinn af því að framsal á nýtingu auðlinda til annars stjórnvalds, þá erlends stjórnvalds fyrst og fremst, geti farið fram með einföldum hætti. Ef hins vegar er gerður einhvers konar samningur sem kallar á atkvæðagreiðslu eða eitthvað slíkt er það vitanlega annað mál. Hér er ég einfaldlega að horfa til þess að ef til þess kemur, sem við vonum að sjálfsögðu að komi aldrei nokkurn tímann til, að Íslendingar verði aðilar að Evrópusambandinu eða einhverju slíku ríkjabandalagi, mér er svo sem sama hvað það heitir, þá liggi ljóst fyrir hvað þjóðinni finnst um þann möguleika að afsala sér nýtingu á auðlindum til einhvers annars stjórnvalds.