140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gallinn á svo mörgum greinum í tillögum stjórnlagaráðs er sá að þær eru óljósar, nánast óframkvæmanlegar eða þær kalla á einhverja lagasetningu sem er ekki gefin nein leiðbeining um hvernig gæti litið út eða á hverju eigi að taka.

Ég verð að segja sem íbúi norður í landi að mér finnst 23. gr. alveg stórkostleg. Ég sé fyrir mér samanburðinn við bestu heilbrigðisþjónustu sem unnt er að veita á höfuðborgarsvæðinu eða einhvers staðar annars staðar. Þetta er svo augljóst en það gengur samt ekki upp, ég geri mér alveg grein fyrir því. Það yrði mjög langsótt að vera með alla þá sérfræðinga þar sem ég bý sem veita heilbrigðisþjónustu að hæsta marki sem unnt er í Reykjavík (PHB: Eða Bandaríkjunum.) — eða Bandaríkjunum. Þetta er svo óljóst. Það er gallinn við þetta þó svo að við getum verið sammála því sem þarna stendur þá gengur það einfaldlega ekki upp.

Eins er með atvinnufrelsi í 25. gr., sem hv. þingmaður skoðar kannski fyrir ræðu sína á eftir, þar stendur í síðustu setningunni, með leyfi forseta:

„Öllum skal tryggður réttur til sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.“

Að sjálfsögðu. Hvað eru sanngjörn laun? Er það ekki eitt af þeim vandamálum sem við höfum glímt við í gegnum áratugina á Íslandi, deilur um það hvað séu sanngjörn laun? (PHB: Milljón á mánuði.) Hvað eru sanngjörn laun? Fer það kannski eftir vinnuframlagi? Eða á að setja ein ríkislaun sem allir eiga að vera á? Mér þætti gaman að sjá hvernig það liti út.