140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Sú ræða fletti ofan af þeim blekkingaleik sem ríkisstjórnarflokkarnir standa fyrir ásamt þingmönnum Hreyfingarinnar. Málið er nefnilega þannig vaxið að það er ekkert að marka þá skoðanakönnun sem á að fara í í haust vegna þess að hún er ráðgefandi og óbindandi fyrir stjórnvöld. Það skiptir því engu máli hvort 51% segi nei eða 51% já, stjórnvöld eru eftir sem áður óbundin af því að fara eftir tillögunum. En væri þetta hins vegar bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla mundu allar þær spurningar sem þingmaðurinn kom fram með skipta máli eins og til dæmis þessar vangaveltur um það hvernig fólk ætti þá að kjósa.

Kannski líkar fólki við einhvern hluta af tillögum stjórnlagaráðs en getur ekki hugsað sér annað og þá er enginn annar möguleiki gefinn en að segja já eða nei. Það er því ekki verið að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs eins og spuninn er keyrður nú í samfélaginu. Fólk getur ekki sagt álit sitt á því vegna þess að tillögur stjórnlagaráðs liggja einfaldlega ekki undir, ekki þessar tillögur sem eru rúmar 110 tillögur að lagagreinum.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kallaði líka eftir hinum svokallaða meiri hluta sem á að vera hér í þinginu. Ég vil benda á að hæstv. forsætisráðherra, sem hefur gert þetta að baráttumáli sínu, tók sér frí frá þingstörfum á föstudaginn og verður í burtu í tvær vikur, einmitt þegar það mál sem hún hefur vaðið eld og brennistein fyrir, og eytt þúsund milljónum af skattfé landsmanna í, er til umræðu í þinginu. Þetta sýnir á hverju þetta mál er keyrt áfram, á þrjósku hæstv. forsætisráðherra og samnings við Hreyfinguna gegn því gjaldi að styðja ríkisstjórnina.