140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn telur að stjórnarskrá sem er unnin í svona mikilli ósátt við þing og þjóð geti ekki orðið langlíf. Ég tek undir það en það er grunnstef hverrar stjórnarskrár í lýðræðisríki að horft sé til langs tíma og til dæmis að mannréttindi séu tryggð til langs tíma í gegnum stjórnarskrá. Það verður fullkomin upplausn hér á landi ef ríkisstjórninni, með aðstoð ráðherralausrar Hreyfingar og stuðningi hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, tekst að koma í gegnum þingið einhverjum drögum að frumvarpi sem þau ætla svo að láta reyna á í atkvæðagreiðslu eftir kosningar ef þetta fer svona í gegn. Ef þetta verður sett fram með þessum mikla ófriði verður hér mikil upplausn, ég tala nú ekki um ef skoðuð eru þau drög sem stjórnlagaráð skilaði af sér varðandi til dæmis mannréttindin.

Árið 1995, eins og ég nefndi áðan, var settur í stjórnarskrána mannréttindakaflinn sem hefur reynst vel og er komin mjög góð dómaframkvæmd á. Það vita nokkurn veginn allir hvaða rétt þeir hafa og hvaða kröfur þeir geta gert á hendur ríkinu. Til dæmis verður það allt saman sett í uppnám þannig að það er eins og þeir vinstri menn sem eru nú við stjórn landsins átti sig ekki á því hvert hlutverk stjórnarskrár er í lýðræðisríki. Það var farið af stað með hina svokölluðu búsáhaldabyltingu. Hv. þingmenn Vinstri grænna meðal annars stjórnuðu því, það hefur komið á daginn og lögreglan hefur vitnað um það. Ég hef oft sagt að þetta hafi tæpast verið búsáhaldabylting, þetta er langtum líkara valdaráni sem virðist hafa orðið, því að það kapp sem þessi ríkisstjórn hefur lagt (Forseti hringir.) á ófriðinn í þinginu er alveg dæmalaust.