140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:07]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessum spurningum er spurt um þjóðkirkjuna, jafnt atkvæðavægi og annað slíkt en spurningarnar eru loðnar og mjög opnar þannig að það er alls ekki ljóst hvaða umboð fæst raunverulega frá þjóðinni miðað við þau svör sem hægt er að gefa. Skýrasta spurningin er um þjóðaratkvæðagreiðslu, hvernig menn sjá fyrir sér hvernig kalla eigi til þess að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er kannski skýrasta spurningin en hinar eru mjög opnar og loðnar og það sem ég er ansi hræddur um er að valdhafarnir geti í umboði svara við þessum spurningum gert hvað sem þeir vilja við þessa liði og alltaf vísað í einhvern þjóðarvilja. Ég held að það yrði hrein og klár blekking en eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu og ítreka enn og aftur er sumt sem þarfnast lagfæringa og einhverju þarf að bæta inn í núverandi stjórnarskrá. Þetta verður allt saman að gera í sátt og það verður að vera einhver eiginlegur tilgangur með því. Þetta er ekki stefnuyfirlýsing eins og núverandi drög bera með sér heldur eru þetta grunnlög fyrir lýðveldið Ísland.