140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:55]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að setja þessa umræðu um breytingar á stjórnarskrá í samhengi. Nú hefur því verið haldið fram í þessari umræðu að undanförnu og reyndar um nokkuð langa hríð að ákveðnir flokkar vilji ekki gera breytingar á stjórnarskrá. Því hefur sérstaklega verið haldið fram um minn flokk, Sjálfstæðisflokkinn, að hann sé mjög tregur þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá. Ég hafna þessari skoðun algjörlega. Mér finnst að með þessu séu menn að drepa málinu á dreif. Það vita allir sem kynna sér málin að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað leitt umræður um breytingar á stjórnarskránni og í þeim ógöngum sem þetta mál hefur verið í undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn reynt að hafa áhrif á þá sem málið hafa borið uppi með það að markmiði að niðurstaðan gæti orðið góð fyrir stjórnarskipun landsins.

Einnig finnst mér mikilvægt í þessu samhengi, virðulegi forseti, að benda á að í tillögum stjórnlagaráðsins, ef við tökum þær fyrir sérstaklega, eru auðvitað atriði sem sjálfsagt er að ræða nánar. Það er ekki eins og menn hafi ýtt þeim skilyrðislaust út af borðinu. Menn hafa hins vegar sagt að þær séu umræðugrundvöllur, innlegg í breytingar á stjórnarskránni ásamt öðrum hugmyndum sem lagðar hafa verið á borðið.

Ég held að það sé enn og aftur nauðsynlegt að ítreka þetta. Gagnvart þeirri vinnu sem stjórnlagaráðsfulltrúarnir lögðu á sig, og þeir skiluðu af sér á miðju síðasta ári, hlýtur að vera dapurlegt hvernig haldið hefur verið á þessu máli á vettvangi Alþingis. Þar stendur upp á Alþingi að hafa ekki tekið það til efnislegrar umfjöllunar eins og það átti að gera.

Ég hygg að þegar skýrslu stjórnlagaráðs var skilað um mitt síðasta ár hafi menn þar á bæ haldið að Alþingi færi í að ræða breytingar á stjórnarskránni, ræða efnisþætti þeirrar tillögu sem þar lágu fyrir ásamt með öðrum tillögum sem lagðar hafa verið fram í þessu efni.

Með tillögu stjórnlagaráðsins, og reyndar grundvelli að henni, ég kom aðeins inn á þetta í ræðu minni í gær, er mjög mikilvæg skýrsla frá stjórnlaganefndinni. Sú nefnd var sett á laggirnar í þverpólitískri sátt í allsherjarnefnd veturinn 2010. Þá tókst í nefndinni samstaða um að setja þessa stjórnlaganefnd á laggirnar. Það tók auðvitað töluverðan tíma að ná samstöðu um hvernig best væri að gera þetta. Niðurstaðan varð sú að setja á fót stjórnlaganefnd. Það var kosið í hana á vettvangi þingsins. Hún skilaði mjög mikilvægu innleggi í breytingar á stjórnarskránni. Það hefur heldur ekki verið umræða á vettvangi þingsins um þær tillögur sem þar komu fram.

Ég kalla enn eftir því, og hugsa að ég muni gera það áfram og muni ekki gefast upp á því, að alþingismenn taki til umfjöllunar þær tillögur sem þegar liggja fyrir, tillögur eldri stjórnarskrárnefnda, tillögur stjórnlaganefndarinnar sem ég var að vísa til, aðrar tillögur sem einstakir þingmenn hafa lagt fram, þessar tillögur stjórnlagaráðs, ræði þær efnislega og breyti þessum sal í stjórnlagaþing eins og sannarlega á við. Það er löngu tímabært að sú vinna fari fram á vettvangi þingsins.

Það eru fjöldamörg álitamál sem við höfum tekist á um varðandi breytingar á stjórnarskrá á undanförnum árum en þó eru ákveðin grundvallarmál sem ég hygg að samstaða hafi náðst um. Ég ítreka enn og aftur að það skýtur ansi skökku við á kosningaári til forseta að Alþingi hafi ekki tekið umræðu um stöðu forsetans á dagskrá í stjórnarskipuninni.

Forseti lýðveldisins hélt ræðu 1. október þar sem hann lýsti skilningi sínum á tillögum stjórnlagaráðs og það er ekkert launungarmál að margir þingmenn stjórnarmeirihlutans voru mjög ósammála þeirri túlkun sem þar kom fram. Hún á hins vegar að vera okkur til leiðsagnar um að tillögur stjórnlagaráðs eru ekki skýrar hvað þetta varðar.

Í vetur hefur ekki verið umræða í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þennan þátt málsins. Það vekur að sjálfsögðu athygli að um þetta er ekki spurt í spurningum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni lögðum hins vegar fram varatillögu, fari þessi skoðanakönnun fram, um að sérstaklega yrði spurt um stöðu forsetans. Ég hygg, virðulegi forseti, að það sé löngu tímabært að Alþingi Íslendinga taki alvarlega umræðu um þetta mál hér.