140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[19:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum að nýju frumvarp til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins, þ.e. IPA-frumvarpið til aðgreiningar frá IPA-þingsályktunartillögunni.

Ég vil vegna orða hv. þingmanns á undan um samanburðinn á andstöðu margra við styrki til stjórnmálaflokka og síðan stuðning við þessa styrki segja að mér finnst þetta athyglisverður samanburður, frú forseti. Ég hef ekki heyrt þetta sett svona fram áður. Við verðum að hafa í huga þegar við ræðum um þessa styrki hvað þarna er á ferð. Þarna eru styrkir í boði frá Evrópusambandinu til Íslands vegna þess að Ísland er aðildarumsóknarríki, vegna þess að Ísland, að mati Evrópusambandsins væntanlega, hyggst verða aðili að því. Þess vegna kemur Evrópusambandið hingað með fjárstyrki til að greiða fyrir aðlögun, greiða fyrir því að Íslandi uppfylli þau skilyrði sem Evrópusambandið setur fyrir aðildinni. Það er tvískinnungurinn í þessu máli, frú forseti. Tvískinnungurinn felst í því að þeir sem á sama tíma berjast gegn aðildarumsókninni, a.m.k. í orði, ætla svo að samþykkja að hér sé skattalögum breytt og samþykkt þingsályktunartillaga sem heimilar að Evrópusambandið komi með sjóði sína hingað í alls konar verkefni, sem eru öll góðra gjalda verð. Ég vil taka það fram eins og ég gerði í síðustu ræðu minni um þetta mál að þessi verkefni eru öll góðra gjalda verð.

Ég hef gagnrýnt það hversu seint bæði þetta frumvarp sem við ræðum nú og þingsályktunartillagan koma fyrir þingið. Skrifað var undir rammasamninginn 8. júlí í fyrra en frumvarpið og þingsályktunartillagan koma ekki til þingsins fyrr en 24. janúar 2012. Þegar ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að því í fyrri umræðunni um þingsályktunartillöguna tjáði hann mér að skýringarinnar væri væntanlega að leita í fjármálaráðuneytinu, væntanlega hefði tekið tíma að vinna frumvarpið. Því vil ég ítreka spurningu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um hvort formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar sé einhvers staðar á svæðinu. Ég hefði gjarnan viljað fá viðbrögð hans og svör við því af hverju það tók sex mánuði frá því að var skrifað undir samninginn þar til frumvarpið og þingsályktunartillagan koma inn í þingið. Þetta er mikilvægt vegna þess sem gerist í millitíðinni. Hvað er að gerast á þessum tíma? Jú, fjárlagafrumvarpið er að koma fram. Af hverju komu þessi mál ekki fram og voru rædd í tengslum við fjárlagagerðina? Það er ljóst að hér eru fleiri hundruð milljónir, 596 millj. kr. ef mig misminnir ekki, í fjárlögum fyrir árið 2012 vegna þessara styrkja, vegna þess mótframlags sem Ísland þarf að leggja til. Því er mikilvægt að fá svar við þessari spurningu.

Ef maður veltir fyrir sér tímasetningum er óskiljanlegt af hverju tillögurnar um IPA-styrkina sem við ræðum núna voru ekki lagðir fram þegar umsóknin sjálf var rædd og samþykkt. Af hverju skyldi það vera? Af hverju var þetta ekki allt rætt á sama tíma? Af hverju kemur þetta fram þremur árum eftir að umsóknin er lögð inn? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að á meðan á þessu hefur staðið hefur tæplega annar hver stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar, margir af þingliði Vinstri grænna, keppst við að þvertaka fyrir að við séum í aðlögunarferli. Það er í raun verið að leyna hinu rétta eðli þessara viðræðna. Hér er engin aðlögun á ferð en samt eigum við að taka við fleiri hundruð milljörðum í Evrópusambandinu til að við séum betur til þess fallin að aðlaga okkur að sambandinu. Þetta stemmir ekki, frú forseti.

Með samþykkt tillögunnar og frumvarpsins er líka verið að gefa í skyn að Ísland sé líklegt til að ganga í Evrópusambandið, að við séum komin á ákveðna leið og dregin er upp sú mynd að við séum á fullri ferð inn. En ég held að við séum ekkert á fullri ferð inn í Evrópusambandið, þvert á móti. Við heyrðum síðast í dag af umræðum og bókunum í hv. utanríkismálanefnd þar sem enn einn stjórnarliðinn lýsir þeirri skoðun sinni að setja eigi þetta ferli allt saman í dóm þjóðarinnar. Ég styð það vegna þess að ég tel mig vita að íslenska þjóðin mundi svara þannig að hún sé ekkert á leið þarna inn á næstunni, að minnsta kosti ekki í þessari lotu. Það er reyndar þannig með Evrópusambandið að ef kosningar ganga ekki upp því í hag er hafist handa að nýju, en ég vil leyfa mér að fullyrða að ef íslenska þjóðin fengi að velja og segja skoðun sína yrði aðildarferlinu sjálfhætt. En með því að samþykkja þessa tillögu er gefin sú mynd að við séum á leiðinni í Evrópusambandið og ég tel það rangt.

Einu finnst mér líka vera ósvarað í þessari umræðu. Hafa verið veittir einhverjir styrkir af fjárlögum eða fjáraukalögum eins og fram hefur komið? Hafa styrkir farið út sem hafa verið greiddir af íslenskum skattgreiðendum og hafa verið fjárheimildir fyrir þeim? Ég rakti áðan að heimildir á fjárlögum þessa árs vegna þessara styrkja voru upp á 596 millj. kr. Ég vona að hv. þm. Helgi Hjörvar geti komið hingað og svarað spurningum mínum. Ég ítreka óánægju mína, frú forseti, með fjarveru hv. þingmanns, en það getur vel verið að hv. þingmaður sitji einhvers staðar í þinghúsinu.

(Forseti (ÁI): Forseti vill upplýsa að hv. þingmaður er ekki í húsinu. Hann var ranglega merktur í hús en það er verið að gera ráðstafanir til að láta hann vita að nærveru hans sé óskað.)

Þakka þér fyrir, frú forseti, að bregðast við þessu. Ég vil gagnrýna harðlega að formaður nefndarinnar skuli ekki vera hér eða einhver fulltrúi úr hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem getur tekið þátt í þessari umræðu og svarað þeim spurningum sem hér koma fram. Mér finnst það alger vanvirðing við Alþingi að hér stöndum við stjórnarandstæðingar heilu dagana og fram á kvöld og fram á nætur og ræðum við tóman sal og hvert við annað. Hvers konar hegðun er þetta og hvers konar framganga er þetta gagnvart Alþingi?

Ég óska eftir því, frú forseti, að vera sett aftur á mælendaskrá og þegar kemur að mér á mælendaskránni óska ég eftir því að gerðar verði ráðstafanir til að tryggja að hér verði fulltrúar úr hv. nefnd. Réttast væri, frú forseti, að fara fram á að þessari umræðu verði frestað þar til bætt verður úr.