140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum áfram frumvarp til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins. Lagatextinn segir töluvert. Þetta eru náttúrlega ekkert annað en aðlögunarstyrkir burt séð frá því fyrir hvaða verkefni er að sækja um því að þau eru auðvitað mörg hver þörf og mikilvægt en þetta eru í raun og veru aðlögunarstyrkir.

Ég held að það kristallist í þessari umræðu og komi alltaf betur og betur í ljós hvað það voru mikil mistök hjá hæstv. ríkisstjórn að sækja um aðild að Evrópusambandinu með þeim hætti sem það var gert. Það er ágætt að rifja það upp í þessari umræðu þegar þingsályktunartillagan var samþykkt 16. júlí 2009. Það vita allir að annar stjórnarflokkanna, Vinstri grænir, gekk til kosninga bundinn af þeim loforðum að alls ekki stæði til að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fékk allt of mörg atkvæði út á það, sem hafa reyndar hrokkið af honum aftur. Ef maður rifjar upp hvernig staðið var að atkvæðagreiðslunni sem hér fór fram og þær atkvæðaskýringar sem komu fram hjá mörgum hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum Vinstri grænna þá lýstu þeir í raun andúð á Evrópusambandinu og inngöngu í það en samþykktu engu að síður þingsályktunartillögu um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það kom reyndar í ljós seinna hjá hv. þingmönnum sem voru í þingflokki Vinstri grænna að búið hefði verið að semja um það á milli stjórnarflokkanna fyrir kosningar að þessi umsókn yrði samþykkt og Vinstri grænir bæru þá ábyrgð á því að tryggja henni þau atkvæði sem til þyrfti. Þetta var fyrsta og afdrifaríkasta ákvörðunin um að fara í þessa vegferð.

Það náði auðvitað ekki nokkurri átt að einstaka hv. þingmenn skyldu segjast ætla að berjast á móti samningnum en stæðu síðan að því að sækja um aðild. Það þarf ekkert að fara yfir það að þegar sótt er um aðild er auðvitað markmiðið að ganga í Evrópusambandið en ekki kíkja bara í einhvern pakka. Það er mjög auðvelt að fara yfir regluverkið og átta sig á hvað fylgir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og gerast þar aðildarríki.

Það sem við erum að ræða núna sýnir hvað hefur verið erfitt að fá upplýsingar um hvort búið sé að þiggja eða sækja um svokallaða IPA-styrki frá Evrópusambandinu til að aðlaga regluverk okkar að regluverki Evrópusambandsins svo að stjórnsýslan verði undir það búin ef samþykkt verður að ganga í Evrópusambandið. Þegar við í hv. fjárlaganefnd kölluðum eftir upplýsingum um þessa styrki við gerð fjárlaga fyrir árið 2010 og 2011 var ekki nokkur einasta leið að fá upplýsingar um það hvort einhverjir styrkir hefðu komið fyrir það fyrsta — svörin voru oft og tíðum mjög skrýtin verð ég að segja — og eins var reynt að fara einhverjar leiðir til að komast hjá því að sótt yrði um með hefðbundnum hætti og aðrir látnir sækja um styrkina en ekki fagráðuneytin sjálf. Það kom margoft og ítrekað fram í hv. fjárlaganefnd að ekki væri verið að þiggja neina styrki frá Evrópusambandinu.

Það þarf auðvitað að skoða það sérstaklega núna, eftir þessa umræðu og eftir að við sáum landsáætlunina, hvernig staðið hefur verið að því að sækja um styrkina. Reyndar er samþykkt í fjárlögum fyrir árið 2012 að sækja um þessar 596 milljónir en það verður að skoða gaumgæfilega hvort búið sé að sækja um og þiggja styrki á árinu 2011. Hafi það verið gert þá er náttúrlega spurningin annars vegar: Af hverju er verið að reyna að plata okkur sem höfum verið að kalla eftir þessum upplýsingum? — og hins vegar hvort ríkisstjórnin og framkvæmdarvaldið hafi verið að plata Evrópusambandið með því að fá þessa styrki með kvöðum sem þeim fylgja og uppfylla ekki skilyrðin. Það er mikilvægt að fá botn í það hvort greiddir hafi verið út styrkir á árinu 2011 sem sótt var um á þeim forsendum sem kröfur Evrópusambandsins gera ráð fyrir til að það fé sem ráðstafað er með IPA-styrkjunum fari allt til ákveðinna verkefna en ekki í að greiða skatta, tolla eða þar fram eftir götunum. Auðvitað er mikilvægt að það komi fram.

Ég vil líka rifja upp þegar send var skrifleg fyrirspurn til allra ráðuneyta og þau spurð við gerð fjárlaga fyrir árið 2011, haustið 2010, um kostnaðinn sem fylgdi því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þá var alltaf sagt: Ja, það kostar þetta ráðuneyti ekki neitt — og ekki neitt — og ekki neitt. Það var fullt af fólki í vinnu sem kostaði ekki neitt. Mér er mjög minnisstætt þegar fulltrúar frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu komu fyrir nefndina og svöruðu þessari spurningu og sögðu að ekki hefði verið gert ráð fyrir því í fjárlögum hjá viðkomandi fagráðuneyti að neinn kostnaður hlytist af því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar kom síðan skýringin að ef vel ætti að vera til að standa undir kostnaði af allri þeirri vinnu sem vinna ætti í ráðuneytinu og fylgdi umsókninni að Evrópusambandinu þyrftu 40–60 milljónir að koma inn í ráðuneytið. Eigi að síður var farið í þennan blekkingaleik og ekkert fært á viðkomandi kostnaðarlið. Það er mjög sérkennilegt.

Það er mjög merkilegt að fjalla um þetta, en eins og hefur komið fram í andsvörum er mjög skýrt kveðið á um það í nefndaráliti meiri hlutans að þetta eru aðlögunarstyrkir þar sem verið er að uppfylla skilyrði aðildar með uppbyggingu stofnana og síðan er tekinn þessi krókur rétt á eftir, þ.e. að hugsanlega sé misjöfn sýn á það hvort þetta séu aðlögunarstyrkir eða eitthvað annað. Það er alltaf verið að reyna að færa málin í annan búning en þau í raun og veru eru. Það er mjög skýrt að þetta eru ekkert annað en aðlögunarstyrkir.

Síðan langar mig til viðbótar að koma inn á það sem mér finnst orðið afar umhugsunarvert fyrir hið háa Alþingi, að nánast öll lagafrumvörp skuli enda á því að í sérgrein í frumvörpunum er kveðið á um opna reglugerðarheimild til ráðherra. Í sérstakri lagagrein þessa frumvarps, sem er 8. gr., stendur, með leyfi forseta:

„Í ákvæðinu er ráðherra heimilað að fjalla nánar um framkvæmd einstakra sérreglna sem lögin kveða á um í reglugerð.“

Þetta segir okkur að hæstv. ráðherra getur sett reglugerð um nánast hvað sem er. Það sem mér finnst vanta og ég geri athugasemdir við er að það þyrfti að koma fram í meirihlutaálitinu, í því lögskýringargagni, hvað er átt við þannig að ákvæðið sé ekki eins opið og það er. Auðvitað þekkjum við það þegar koma upp álitamál að þá er alltaf spurning hvað þingið getur framselt mikið vald til ráðherrans eða framkvæmdarvaldsins, þ.e. frá löggjafarvaldi til framkvæmdarvalds. Það er umhugsunarefni fyrir okkur hvort heldur sem það er í þessu máli eða einhverju öðru að færa mál í þann búning að það komi að minnsta kosti fram í nefndaráliti og verði þá að kalla eftir því í meðförum nefndarinnar, eins og í þessu tilfelli hv. efnahags- og viðskiptanefndar, að ráðherra og ráðuneyti útskýri hvað sé um að ræða og í hvaða tilfelli þurfi hugsanlega að beita þessum reglugerðarheimildum í stað þess að hafa þetta svona opið. Það væri æskilegt að það kæmi fram í lögskýringargagninu, sem er nefndarálitið, þannig að þingið gæti áttað sig á því hver heimildin til reglugerðarsetningar væri.

Við þurfum ekki annað en rifja það upp þegar samþykkt var skýrsla þingmannanefndarinnar og þingsályktunartillaga þingmannanefndarinnar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis því að þá var akkúrat mikill fagurgali um að þingið þyrfti að styrkjast og breyta þyrfti vinnubrögðum og auka aðhald með framkvæmdarvaldinu en svo fjarlægjumst við sífellt þau markmið.