140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:55]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það mun fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu. Þjóðin mun segja álit sitt á því hvort hún vilji ganga til liðs við Evrópusambandið. Ef við viljum hafa valkostina skýra og ef við viljum að þjóðin taki upplýsta ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu leggjum við ekki viðræðuferlið í dóm kjósenda heldur samninginn sjálfan.

Þess vegna segi ég, virðulegi forseti: Ég er ekki hræddur við þá atkvæðagreiðslu þegar þjóðin tekur upplýsta ákvörðun um hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið. Öfugt við aðra þingmenn, eins og hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson og aðra íhaldsmenn sem eru hræddir við að þjóðin segi já og ætla þess vegna að reyna að stöðva viðræðuferlið, segi ég: Við eigum ekki að vera hrædd við vilja þjóðarinnar þegar hún tekur upplýsta (Gripið fram í.) ákvörðun um málið [Kliður í þingsal.] og þess vegna eigum við ekki að leggja viðræðuferlið í dóm þjóðarinnar, við eigum að setja (Forseti hringir.) samninginn sjálfan í dóm þjóðarinnar.

Þess vegna segi ég nei. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Til þess að … með þjóðinni.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð þegar þeir gera grein fyrir atkvæði sínu.)