140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:01]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef komið að áður setti ég það skilyrði að Alþingi mundi fjalla efnislega um tillögur stjórnlagaráðs. Það skilyrði hefur ekki verið uppfyllt. Ég tel hins vegar margt gott í tillögum stjórnlagaráðs og vil þess vegna benda á að ef seinni liðurinn, þ.e. sá sem segir „Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá“, verður valinn eru tillögur stjórnlagaráðs alfarið úr sögunni. Það vil ég ekki. Það hefði verið miklu skynsamlegra að við hefðum tekið það góða úr núverandi stjórnarskrá og það góða úr tillögum stjórnlagaráðs (Gripið fram í.) og unnið það á Alþingi. Það er margt gott í báðum þessum stjórnarskrám. Þá gömlu þarf að bæta.

Ég geri ekki þá kröfu að allir þingmenn hér inni skilji þetta. (Forseti hringir.)

Ég mun því sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.