140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir fór ágætlega yfir forsendur sem þurfa að liggja til grundvallar spurningum. Hv. þm. Þór Saari sýndi með frammíkalli sínu hversu óljóst þetta er, ef það var ekki nógu skýrt fyrir. Þegar við spyrjum svona opinnar spurningar um tillögur stjórnlagaráðs sem eru 115 greinar sér hann til þess að hér er enn ein túlkunin komin fram. Hv. þingmaður túlkaði það þannig að ef svarið væri já væru allar tillögurnar 115 undir. Ég hef heyrt á göngunum að ef maður segir nei séu bara þær tillögur farnar, allar 115. Þá megum við ekki gera neitt með allar þessar 115 tillögur sem hefur komið fram í umræðum að margar eru mjög góðar, aðrar verri. Það hefur að vísu ekki komið fram hjá stjórnarliðum sem hafa ekki tekið þátt í umræðunum en við stjórnarandstæðingar erum búnir að taka þessa umræðu. Mjög margar af þessum umræðum bjóða upp á stórar spurningar sem ekki hefur verið svarað.

Þessi spurning er skólabókardæmi (Forseti hringir.) um óskýra spurningu og hver og einn getur túlkað hana með sínum hætti þegar niðurstaða liggur fyrir.