140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Sá texti sem er nú verið að greiða atkvæði um var akkúrat til að toppa ruglið í öllu þessu máli. Þarna má allt í einu koma langur skýringartexti á kjörseðil þó að óskyld mál megi ekki vera saman á kjörseðli. Hérna kemur að einhver ákvæði eigi að koma skýrt fram á honum og svo þessi útskýring til þeirra sem þó ætla að mæta á kjörstað og láta sig hafa það að taka þátt í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá stendur á kjörseðlinum: Þú átt að kjósa um þessar sex spurningar, en taktu eftir, þetta getur allt saman tekið breytingum í meðförum þingsins.

Þetta er heila málið, frú forseti, þarna upplýsist hráskinnaleikurinn sem er búið að leika í þessu máli. Það er ekki verið að greiða atkvæði um endanlegt plagg sem verður að stjórnarskrá. Þarna kemur þetta í ljós og fyrir utan síðustu setningarnar kemur í lokin að stjórnlagaráð hefur skilað Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá (Forseti hringir.) eins og það viti ekki allir. Það stendur efst í plagginu. Þetta er svo illa unnið að maður hálfskammast sín fyrir þetta.