140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Fjárfestingaráætlunin sem kynnt var í síðustu viku hvílir á mörgum styrkum stoðum, stefnumörkun um Ísland 20/20, græna hagkerfinu, stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs og markmiðum í ríkisfjármálum. Að mótun þessarar stefnu hafa fjölmargir komið og fyrir það skal þakka. Fjármögnunin byggir annars vegar á þeirri framtíðarsýn sem Bankasýsla ríkisins hefur nýverið kynnt og frumvörpum um stjórn fiskveiða hins vegar.

Fjárfestingaráætlunin er liður í áframhaldandi sókn eftir efnahagshrunið og er ætlað að styðja við efnahagsbata og hagvöxt. Þótt margt hafi áunnist í efnahagsmálum er áfram slaki í efnahagslífinu sem sést á því að atvinnuleysið er 6–7% og hagvöxturinn 2,5–3%. Meðan þessi slaki er fyrir hendi er skynsamlegt að verja hluta þeirra fjármuna sem bundnir hafa verið í bönkum og hluta auðlindagjalda til uppbyggingar innviða samfélagsins. Þannig styrkist undirstaða sjálfbærs hagvaxtar og tekjugrunnur ríkissjóðs til framtíðar. Lagðar eru nýjar áherslur í atvinnumálum um skapandi greinar, ferðaþjónustu, nýsköpun, rannsóknir og græna hagkerfið. Sú atvinnustefna sem fjárfestingaráætlunin grundvallast á er fjölbreytt og því eðlisólík stóriðjueinstefnunni sem margir eru enn fastir við.

Hér er um afmarkaða fjárfestingaráætlun að ræða sem fjármögnuð verður með skilgreindum hætti. Þetta er til viðbótar við fjölda fjárfestingarverkefna sem ýmist eru þegar í gangi eða langt komin, m.a. Búðarhálsvirkjun, Landspítalinn, hjúkrunarheimili víða um land og námsmannaíbúðir.

Samkvæmt spá Hagstofunnar hækkar hlutfall fjárfestinga af landsframleiðslu í 15,2% á þessu ári og í 16% á því næsta, sem er aukning frá 2010 um 3,2 prósentustig. Með fyrirliggjandi fjárfestingaráætlun má gera ráð fyrir að hlutfall fjárfestinga af landsframleiðslu hækki um 1,4 prósentustig á næsta ári og verði 17,5% og um 2% á árinu 2014 og verði 19,1%. Hefur hlutfall fjárfestinga af landsframleiðslu þá hækkað um 4% á tveimur árum.

Hæstv. forseti. Áætlunin felur í sér verkefni sem leiða munu til fjárfestinga fyrir um 88 milljarða kr., en þar af er gert ráð fyrir að 39 milljarðar verði fjármagnaðir úr fjárfestingaráætluninni. Fjármögnunin er tvíþætt. Annars vegar er ráðgert að 17 milljarðar komi af sérstöku veiðigjaldi og leigu aflahlutdeilda, og eru þau áform með fyrirvara um samþykkt fyrirliggjandi frumvarpa um fiskveiðistjórn og veiðigjöld sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi. Alls má gera ráð fyrir að aukin veiðigjöld skili milli 40 og 50 milljörðum kr. næstu þrjú árin. Hins vegar komi 22 milljarðar af arði og eignasölu hluta ríkisins í bönkum samkvæmt framtíðarsýn Bankasýslu ríkisins og eru með fyrirvara um að þær hugmyndir gangi eftir. Ætla má að allt að 75 milljarðar komi í hlut ríkisins úr bönkunum á næstu þremur árum. Ríkið hefur lagt bönkunum til mikið fé. Reikningar þeirra sýna að ríkið getur farið að losa um þá fjármuni, m.a. til atvinnuuppbyggingar.

Samanlagt er hér gert ráð fyrir að ríkið fái allt 125 milljarða í tekjur af eignarhlut í bönkum og veiðigjöldunum á næstu þremur árum. Af þessari fjárhæð er ætlunin að verja rúmum 30% til fjárfestingaráætlunarinnar og afganginum, 70%, verður hægt að verja meðal annars til að treysta hag ríkissjóðs og greiða niður skuldir þannig að hér er einungis um það að ræða að verja rúmum 30% af veiðigjöldunum og arðinum til fjárfestingaráætlunarinnar.

Hluta sérstaks veiðigjalds verður varið í fyrsta lagi til samgöngumála. Þar er um að ræða 2,5 milljarða kr. árlegt viðbótarframlag til samgönguáætlunar til næstu tíu ára. Þetta skapar svigrúm til að flýta framkvæmdum við Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng um þrjú ár og í kjölfarið ráðast fyrr en ella í byggingar annarra arðbærra mannvirkja. Í öðru lagi fer hluti veiðigjalda til að efla rannsókna- og tækniþróunarsjóði og fjárframlög til þeirra verða tvöfölduð. Í þriðja lagi verður varið 1,2 milljörðum til atvinnuþróunar og sóknaráætlana á vegum landshlutasamtaka. Reynslan hefur verið mjög góð af sóknaráætlunum landshluta og þar hefur verið brotið í blað í samskiptum ríkis og sveitarfélaga um mótun atvinnuuppbyggingar um allt land.

Verkefni sem fjármögnuð verða af arði og sölu eignarhluta í bönkum eru tvenns konar, annars vegar framlög til uppbyggingar vaxandi atvinnugreina og hins vegar verklegra framkvæmda. Verkefnin eru valin með tilliti til þess að auka sem mest sjálfbæran hagvöxt til skamms og langs tíma. Varðandi framkvæmdir er lögð áhersla á verkefni sem eru langt komin í hönnun og undirbúningi. Þá er einnig haft í huga að verkefni leiði ekki til skuldbindinga um framtíðarrekstur. Jafnframt er tekið mið af verkefnum sem laða munu fram fjármagn frá einkaaðilum og öðrum opinberum aðilum. Þær atvinnugreinar sem sérstaklega eru studdar eru ferðaþjónusta, skapandi greinar og græna hagkerfið.

Ráðist verði í uppbyggingu ferðamannastaða og innviða á friðlýstum svæðum og varið í þessu skyni 250 millj. kr. á ári. Sjónum hefur í auknum mæli verið beint að skapandi greinum og öllum er nú ljóst að menning er atvinnugrein, þróttmikil atvinnugrein með mikla vaxtarmöguleika. Alls er gert ráð fyrir að til skapandi greina verði lagðar 2,8 milljarðar kr. á þriggja ára tímabili. Meðal annars verða framlög til Kvikmyndasjóðs aukin myndarlega. Þá verður rafræn stjórnsýsla efld sem kemur hugbúnaðargreinum til góða.

Áherslu á græna hagkerfið gætir nú víða um heim og þær sjást hvarvetna í áætlunum ríkja um aukinn hagvöxt. Alþingi hefur nýlega samþykkt þingsályktunartillögu þar um. Markmiðið er að leggja grunn að grænum og sjálfbærum hagvexti.

Tæpum 4 milljörðum er áformað að verja til sex verkefna á þessu sviði. Þar nefni ég fimm ára átak til að auka erlendar fjárfestingar í grænni atvinnustarfsemi, grænan fjárfestingarsjóð, endurgreiðslu á kostnaði við að gera fyrirtæki umhverfisvæn, vistvæn innkaup, orkuskipti í skipum og ívilnun til eigenda hreinorkubíla.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að til bygginga og viðhalds verði varið um 13 milljörðum kr. Líklega fór engin atvinnugrein eins illa út úr hruninu og byggingariðnaðurinn, og atvinnuleysi er enn mjög mikið meðal iðnaðar- og byggingarverkafólks.

Við núverandi aðstæður má ná hagstæðum samningum sem auka arðbærni verkefna. Jafnframt má benda á að lágt gengi krónunnar nú um stundir hefur í för með sér auknar líkur á því að innlendir verktakar komi að framkvæmdum. Flýting framkvæmda leiðir einnig til meiri verðmætasköpunar innan lands en ella. Helstu verkefnin sem um er að ræða eru að flýta viðhaldsverkefnum á fasteignum ríkisins, bygging húss íslenskra fræða, menntavísindasvið Háskóla Íslands, fimmti áfangi Háskólans á Akureyri og nýtt fangelsi. Loks vil ég geta um fjármögnun á nýjum Herjólfi í samstarfi við heimamenn og endurbætur á Landeyjahöfn.

Hæstv. forseti. Ég hef hér farið yfir helstu þætti í fjárfestingaráætluninni. Eins og allir sjá er hér um að ræða metnaðarfulla en þó varfærnislega áætlun, eins og ég hef áður komið inn á, og mikilvægt innlegg er þessi framkvæmdaáætlun sannarlega til endurreisnarinnar. Miklu skiptir að efnahagsáhrifin séu metin af raunsæi. Fjárfestingaráætlunin svarar til um 2,3% af áætlaðri landsframleiðslu að meðaltali árin 2013–2015.

Rétt er að taka fram að hér er eingöngu miðað við ráðstöfun opinberra fjármuna en ekki tekið tillit til fjárfestinga einkaaðila sem áætlunin leiðir af sér. Þar skiptir langmestu áætlunin um byggingu leiguíbúða sem svarar til um 40 milljarða kr. fjárfestingar. Aukin framlög til samkeppnissjóða kalla einnig fram samsvarandi framlög fyrirtækja og þá leggur Háskóli Íslands til happdrættisfé til framkvæmda. Að teknu tilliti til þessa er heildarfjárfestingaráætlunin upp á 88 milljarða kr., þ.e. ríflega 5% af landsframleiðslu á áætlunartímanum.

Þegar allt er talið má ætla að áætlunin skapi um 4 þús. störf. Ef notuð er sama mælistika og í ýmsum nýlegum skýrslum og athugunum sem hér hafa verið ræddar og tekið undir gætu bein, óbein og afleidd störf verið um 11 þúsund. Við mat á þjóðhagslegu áhrifunum var notað þjóðhagslíkan viðlíka því sem Seðlabankinn og Hagstofa Íslands hafa yfir að ráða.

Áhrif áætlunarinnar eru þau að fjárfesting og landsframleiðsla aukast verulega. Atvinnuleysi lækkar á spátímanum um allt að 0,5%. Færa má rök fyrir því að áhrifin á atvinnuleysi kunni að vera vanmetin, eins og áður greindi, einkum vegna þess að mikið atvinnuleysi er enn í byggingariðnaði. Verulegum fjármunum í þessari framkvæmdaáætlun er einmitt varið til byggingariðnaðarins.

Áætlað er að að tekjur ríkissjóðs aukist um 16,9 milljarða alls á þremur árum. Til viðbótar minnka útgjöld vegna minna atvinnuleysis og gæti þar verið um að ræða 2–3 milljarða kr. í sparnað. Samanlagt hefur áætlunin því í för með sér að bæta hag ríkissjóðs um 19–20 milljarða kr. á næstu þremur árum.

Ég fullyrði því, virðulegi forseti, að sú áætlun sem hér er sett fram sé bæði mjög varfærin og skynsamleg og hefur einnig þann tilgang að bæta stöðu ríkissjóðs eins og fram hefur komið, auk þess sem þetta mun stuðla að verulegri atvinnuuppbyggingu og auknum hagvexti og draga verulega úr atvinnuleysinu. Ég tel að nú sé rétti tíminn fyrir metnaðarfulla og djarfa sóknaráætlun eins og hér er til umræðu. Við erum einfaldlega komin á ákveðinn vendipunkt. Hagvöxtur er að glæðast og atvinnuleysi minnkar. Nú sjáum við fyrir að við getum endurheimt fjármuni sem lagðir voru í bankana og ekki síður sanngjarnt gjald af fiskveiðiauðlindinni sem nú er í augsýn.

Nú er því rétti tíminn til að skila þessum arði til þjóðarinnar í atvinnuuppbyggingu og bættum lífskjörum.