140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir að segja að ég hafi verið of kurteis í málflutningi mínum, ég kann vel að meta að tekið sé eftir kurteisi manns í ræðustól. Það er alveg rétt ábending hjá hv. þingmanni að það var kannski ótímabært hjá mér að leyfa mér að efast um meiri hlutann í þessu. Auðvitað snýst þetta bara um líf ríkisstjórnarinnar og við getum vísað í atkvæðagreiðsluna í dag, eins og ég gerði reyndar í ræðu minni, og skýringarnar. Það var í lagi að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána samhliða forsetakosningum, það átti að reyna að knýja það í gegn, en það var ekki í lagi að bæta spurningum við spurningavagninn núna, þá var það allt í ósamræmi. ESB er ótímabært til atkvæða en stjórnarskráin ekki. Þetta þekkjum við, og beðið um sértillögu, við þurfum þá bara að láta þau fá sértillögu til að uppfylla þau skilyrði.

En Evrópustofa og fjármögnun hennar, ég verð að taka undir það með hv. þingmanni að mér þykir það ekki eðlilegt. Kannski er það einkum og sér í lagi vegna þess að ég get ekki séð í þeim gögnum sem við höfum að nei-hreyfingar og andstæðingar Evrópusambandsins, eða einhverjir sem tala í þá veruna, séu fjármagnaðar með IPA-styrkjum. Nú getur það verið að slíkir aðilar hafi ekki löngun til að sækja um slíka styrki og skil ég það vel. En ég tel allar upplýsingar af hinu góða og að því leyti til geri ég ekki athugasemdir við Evrópustofu. En upplýsingar þurfa að vera um allar hliðar máls (Forseti hringir.) og það er það sem ég hef mest út á Evrópustofu að setja. Auðvitað er þetta bara (Forseti hringir.) áróðursmaskína en ekki upplýsingastofa.