140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[23:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er tvennt sem ég vil spyrja hv. þingmann um. Í fyrsta lagi: Hver er skoðun hennar á því að það mál sem nú er til umræðu kemur núna í þingið en það var skrifað undir samning 8. júlí 2011? Hv. þingmaður nefndi feluleik oft í ræðu sinni og þessi ógegnsæju vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar sem ég er algerlega sammála hv. þingmanni um en mig langar að velta því upp við hv. þingmann hvort þetta gæti verið enn einn feluleikurinn í kringum Vinstri græna gagnvart þessu máli.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um það sem kom fram í atkvæðaskýringunni. Það gladdi nokkuð marga hv. þingmenn sem héldu að þeir hefðu unnið þessa orrustu í atkvæðagreiðslu um tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur fyrr í dag þar sem fallið var frá því að leyfa þjóðinni að kjósa um hvort halda ætti þessu aðlögunarferli áfram. Þá sagði hv. þm. Álfheiður Ingadóttir í atkvæðaskýringu að það væri ekki hægt að styðja þá tillögu af því að hún væri laumufarþegi sem mér finnst reyndar mjög ósmekklega sagt. Hvaða orð er eiginlega hægt að nota yfir kosningaloforð Vinstri grænna þegar þeir túlka þetta með þessum hætti?

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að þegar fyrri þjóðaratkvæðagreiðslan var um Icesave-samninginn og hæstv. forsætisráðherra talaði um lýðræðisást sína, sem hún gerir gjarnan á tyllidögum, boðaði hæstv. forsætisráðherra að hún ætlaði ekki einu sinni að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. (Gripið fram í.) Það er nú öll lýðræðisástin. Hvað finnst hv. þingmanni um slík skilaboð frá hæstv. forsætisráðherra um að boða að hún ætli ekki að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu en talar síðan fyrir því á tyllidögum að mikilvægt sé að þjóðin fái að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum?