140. löggjafarþing — 108. fundur,  29. maí 2012.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:33]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Kæru landsmenn. Þetta er svolítið skringilegt samfélag sem við búum í. Hér sitjum við á Alþingi í eilífum bútasaumi að reyna að koma í veg fyrir að einhverjir þegnar landsins séu alltaf að svindla á öllum lögunum sem við erum að reyna að setja. Mér finnst það rosalega skrýtilegt samfélag, mig langar eiginlega ekkert að búa í svona samfélagi.

Mig langar svolítið að kalla á ykkur, kæru landsmenn, og biðja ykkur um að taka þátt í að ræða um þessa nýju stjórnarskrá sem okkur tókst, þrátt fyrir mikla erfiðleika á þinginu okkar, að koma í gegn og tryggja að fari þjóðaratkvæðagreiðslu. Mig langar að biðja ykkur um að vera með og mig langar að biðja ykkur um að vera ekki að bíða eftir því að stjórnmálamenn eða einhverjir aðrir fái ykkur til að tala um nýju stjórnarskrána ykkar, nýju stjórnarskrána okkar. Ég hvet ykkur til að byrja bara að tala um hana núna. Ég hvet ykkur til að skoða hvað það er sem ykkur finnst mikilvægt að sé hluti af samfélagssáttmálanum okkar. Í hvernig samfélagi viljum við búa? Viljum við yfir höfuð þessa nýju stjórnarskrá? Viljum við meiri völd, meiri ábyrgð?

Það sem hefur í raun og veru gerst, ekki bara á Íslandi heldur úti um allan heim, er að sú tegund af lýðræði sem við búum við, þetta fulltrúalýðræði, þessi tilraun hefur mistekist. Hún er pínulítið úr sér gengin einfaldlega út af því að fólk er hætt að skipta sér af okkur. Við getum bara gert nákvæmlega það sem við viljum hérna og það veit enginn hvað við erum að gera. Hérna getur fólk eytt dögum og vikum í að rífast um eiginlega ekki neitt og ræðurnar sem ég heyrði og þið hér áðan eru svona svolítið eins og við búum alveg hvert í sínum heiminum.

Það er auðvitað ekki þannig. Við vinnum rosalega mikla vinnu í nefndunum þar sem við erum ekki að rífast svona eins og við gerum alltaf þegar myndavélin fer í gang og það hefur átt sér stað mjög góð vinna á nefndasviðinu, alla vega í þeim nefndum sem ég hef setið í sem eru allsherjar- og menntamálanefnd og svo hef ég setið svolítið í velferðarnefnd. Þar er ekki þetta sem þið haldið að sé í gangi hérna í leikritinu, í þessu sem sumir kalla leikhús fáránleikans.

Ég vil sem sagt varpa ábyrgðinni, kæru landsmenn, pínulítið yfir á ykkur því að það er á ábyrgð okkar allra að ræða um þennan nýja samfélagssáttmála og það er á ábyrgð okkar að nýta þessa krísu sem við höfum verið í til þess að endurskoða samfélagið, endurskoða kerfið. Kerfið okkar er orðið eins og alveg rosalega gamalt stýrikerfi inni í splunkunýju tölvukerfi, sem sagt í splunkunýjum kassa. Og það gengur eiginlega ekki að setja inn mjög gamalt — ef ég ætlaði að fara að uppfæra makkann minn og ætlaði að setja inn eitthvert kerfi sem var í gangi fyrir tíu árum, að þá mundu öll nýju forritin ekki virka. Og þannig er það svolítið, við þurfum eiginlega að núlla kerfið okkar og hefja samræðu um það hvort það sé ekki skynsamlegt í staðinn fyrir að stækka kerfið svona mikið að minnka það þannig að hver og einn hafi tækifæri til að hafa meiri áhrif á sitt nærsamfélag, eins og tilraunir hafa verið gerðar með hjá Reykjavíkurborg með Betri Reykjavík þar sem borgarbúar hafa getað tekið virkan þátt í að koma með tillögur að því hvernig samfélag þeirra á að vera. Það hefur tekist mjög vel. Mér finnst að við þingmenn gætum gert sambærilega tilraun með því að fólk geti til dæmis skráð sig inn á mál sem því finnst mikilvæg og fengið uppfært reglulega, bara í tölvupósti, um þau mál sem það hefur verið að fylgjast með, því að fæstir vita að almenningur getur komið með athugasemdir við þingmál þegar þau eru til umfjöllunar í nefndunum og ég hvet fólk til að kynna sér það.

Síðan er annað sem mér finnst svolítið merkilegt með þetta framsal á valdi á fjögurra ára fresti. Við fáum sem sagt eiginlega að gera það sem við viljum hérna í fjögur ár og síðan komum við með svona kosningaræður eins og við erum búin að heyra svolítið í kvöld og lofum alls konar góðum hlutum en getum svo ekkert staðið við það út af því að það er kannski í engum takti við það sem mögulegt er. Ég mundi vilja kannski kalla eftir leiðsögn, kalla eftir dómgreind upplýstrar þjóðar og sér í lagi þegar að þjóðaratkvæðagreiðslu kemur varðandi stjórnarskrána. Ég vona að þið gerið ykkur grein fyrir hvað það er ótrúlega merkileg samfélagstilraun að fá tækifæri til að taka þátt í að búa til nýja stjórnarskrá — alls staðar þar sem ég hef farið út um heiminn öfundar fólk okkur rosalega mikið út af því hvað fólk fékk mikil tækifæri til að láta rödd sína heyrast og síðan að fá að greiða atkvæði um þessa sömu stjórnarskrá.

Það er auðvitað ekkert allt í nýju stjórnarskránni sem mér finnst æðislegt og ég held að hún sé ekki klæðskerasaumuð fyrir hvern einasta einstakling. Ég held aftur á móti að ef við getum notað hana sem tækifæri til að tala um hvernig samfélag við viljum búa við, viljum við t.d. búa við bankakerfi þar sem peningar eru búnir til úr skuldum? Er það ekki dæmt til að hrynja aftur eftir svona tíu ár? Mér hefur ekki fundist síðan ég kom hingað inn á þing að nægilega róttækar breytingar hafi átt sér stað, við erum eiginlega bara að tjasla upp í gamla teppið í þessum bútasaumi en í raun kallaði það kerfishrun sem við upplifðum hér á algjöra uppstokkun. Ég vonast til þess, og ég skora á ríkisstjórnina og hina þingmennina sem eru í svokölluðum stjórnarandstöðuhluta þingsins — enn og aftur, ég er búin að gera það í hvert einasta skipti sem ég kem í einhverjar ræður að biðja fólk um að vinna meira saman. Mig langar svo mikið til að við hættum að rífast um litinn á sjúkrabílnum og förum að einbeita okkur að því að komast á slysstað. Núna erum við eiginlega komin á slysstaðinn og hvað ætlum við að gera? Hvert erum við að fara sem þjóð? Mér finnst eins og fólk átti sig ekki almennilega á því hvorki hér inni né úti í samfélaginu.

Notum þess vegna sumarið til að spjalla um nýja stjórnarskrá við eldhúsborðið — ég vænti þess að allir sitji við eldhúsborðið að hlusta á eldhúsdagsumræðurnar — og ræðum um hana. Viljum við til dæmis að 10% þjóðarinnar geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um málefni sem skipta hana máli? Mér finnst persónulega að þjóðin ætti að fá að kjósa um allt. Lýðræðið er ekkert endilega fallegt. Lýðræði getur stundum verið þannig að fólk kýs að gera eitthvað sem minni hlutinn vill ekki. En fyrst og fremst finnst mér mikilvægt að þið nýtið þennan tíma til að lesa þetta, þetta er æðislega falleg stjórnarskrá. Sérstaklega finnst mér mikilvægt að við séum að koma hér á beinna lýðræði.

Ég hvet fólk til þess að fara inn á bæði Betri Reykjavík og fylgjast með hvað við erum að gera hér á Alþingi, og ég vonast til þess að það verði virkilega góð þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrá. Það var mjög erfitt að koma henni í gegn. Við þurfum að fá að vita hvað þið viljið þannig að við getum haldið áfram með hana hér á þingi.