140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að hv. þm. Atli Gíslason fór hér fyrir þingmannanefnd sem var falið af þinginu að fara yfir hvað mætti betur fara í stjórnsýslunni langar mig til að spyrja hann, af því að hv. þingmaður er lögmaður: Hvað finnst honum um það að hæstv. utanríkisráðherra er raunverulega að leyna þingið upplýsingum eða við skulum við segja frekar blekkja? Þingmaðurinn vísaði hér í 18 aðlögunarfrumvörp á síðasta þingi og 34 aðlögunarfrumvörp að ESB á þessu þingi. Hvernig getur hæstv. utanríkisráðherra komið fram í þjóðþinginu og sagt eða haldið frammi þessum blekkingaleik sem spunameistarar keyra svo áfram?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja þingmanninn út í þau orð að Icesave-samningarnir hafi verið eineggja tvíburi Evrópusambandsumsóknarinnar: Var það raunverulega svo að þingmenn sátu undir hótunum um að ef þeir mundu (Forseti hringir.) ekki samþykkja Icesave mundi ESB draga umsóknina til baka?