140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér eru mikil tíðindi á ferðinni. Hv. þingmaður staðfestir hér að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi verið búin að ákveða fyrir síðustu kosningar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Að mínu viti fer það algerlega gegn þeim kosningaáróðri og þeim málflutningi sem frambjóðendur og forusta þess flokks fór fram með í síðustu kosningabaráttu.

Þetta eru alvarleg tíðindi, frú forseti, og mjög áhugavert að hv. þingmaður skuli koma þessum upplýsingum á framfæri. Þetta sýnir okkur kannski að þeir hv. þingmenn sem starfa innan þessarar hreyfingar eru stundum sekir um að kasta steinum úr glerhúsi þegar talað er um að hafa allt uppi á borðum og koma hreint fram.