140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Enn ræðum við þingsályktunartillögu um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um svokallaða IPA-styrki. Ég er ánægð að sjá hæstv. utanríkisráðherra í hliðarsal og vona að hann sperri eyrun og taki niður spurningar vegna þess að ég hef saknað þess við umræðuna að hafa ekki haft tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. utanríkisráðherra og hef nokkrar spurningar sem ég vil varpa til hans.

Þetta mál hefur fengið ágæta umfjöllun núna í maímánuði 2012. En því hefur enn ekki verið svarað af hverju þetta var ekki rætt í samhengi við aðildarumsóknina á sínum tíma, af hverju IPA-tillögurnar voru ekki lagðar fyrir þingið og ræddar við meðferð umsóknarinnar sjálfrar. Þær komu ekkert til tals þá og eins og hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson og Pétur H. Blöndal nefndu áðan segir ekkert um IPA-styrkina í nefndarálitinu, biblíu hæstv. utanríkisráðherra. [Kliður í þingsal.] Af hverju ekki? Af hverju var þetta ekki tekið með í þeirri viðamiklu umræðu sem þá fór fram um þetta ferli? Hér segir í nefndarálitinu, virðulegi forseti, á bls. 11, í biblíu hæstv. utanríkisráðherra:

„Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að Alþingi komi með sem beinustum hætti að ferlinu á öllum stigum þess. Tryggja verður að þingið standi ekki frammi fyrir orðnum hlut heldur sé virkur þátttakandi og eftirlitsaðili frá upphafi og í ferlinu öllu.“

Herra forseti. Það er óneitanlega mikill kliður hér.

(Forseti (SIJ): Forseti vill biðja þingmenn í hliðarsölum að koma inn og taka þátt í umræðunni eða gefa ræðumanni hljóð ella.)

Ég þakka fyrir, herra forseti. Ég mundi kjósa að í stað þess að hafa hljóð kæmi hæstv. utanríkisráðherra hingað inn og tæki þátt í þessari umræðu.

Það segir í þeirri tilvitnun sem ég var að lesa að tryggja verði að þingið standi ekki frammi fyrir orðnum hlut heldur sé virkur þátttakandi og eftirlitsaðili frá upphafi og í ferlinu öllu. Þá blasir þessi spurning við, spurning sem ég hef spurt hæstv. utanríkisráðherra áður og ekki fengið viðunandi svör við: Af hverju voru styrkirnir ekki ræddir við meðferð umsóknarinnar eða í það minnsta í tengslum við fjárlagagerð í haust?

Herra forseti. Það hryggir mig að sjá hurð í hliðarsal hallað aftur og nú skilja þessar dyr á milli mín og hæstv. utanríkisráðherra sem ég hélt að ég væri að eiga orðastað við.

Við vitum að samningurinn var undirritaður 8. júlí 2011, það hefur komið fram. Ég hef margítrekað spurt að því af hverju það var ekki fyrr en 24. janúar 2012 sem þessi þingsályktunartillaga og það frumvarp sem við höfum hafið umræðu um en er á dagskrá að lokinni þessari umræðu, komu ekki á dagskrá þingsins fyrr en í janúar. Mér finnst það hreint óskiljanlegt. Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að þessu í fyrri umræðu og hann gaf þá skýringu að málin hefðu tafist í fjármálaráðuneytinu. Nú veit ég að hæstv. utanríkisráðherra hefur haft tíma á milli umræðna til að grafast betur fyrir um þetta og því ítreka ég hvort hann geti gefið mér viðhlítandi skýringar á þessu og í það minnsta skýringar á því hvers vegna þingsályktunartillagan tafðist. Við vitum að það er alvanalegt að fyrir þingið séu lagðar þingsályktunartillögur sem fela í sér að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna EES-samningsins. Við tökum þær tillögur í gegn jafnvel þótt frumvörp liggi ekki fyrir, en fyrirætlunin kemur fram í þingsályktunartillögunni og það er það sem hér um ræðir.

Það lá fyrir 8. júlí þegar samningurinn var gerður að hann mundi krefjast lagabreytinga og þess að Alþingi staðfesti rammasamninginn með þingsályktunartillögu. Þess vegna tel ég algerlega ótækt að það liggi ósvarað af hverju þessi háttur var hafður á. Ef hæstv. ráðherra ætlar ekki að svara get ég svo sem búið mér til mínar eigin kenningar. Það gæti til dæmis verið að það hentaði ekki umræðunni, hinni óþægilegu aðlögunarumræðu, að þessi mál kæmu inn samtímis, ríkisstjórninni þætti það óþægilegt. Jafnvel þótt við værum að ræða þau í tengslum við fjárlagagerðina væri hægt að fela þau inni í fjárlagaumræðunni og ekki taka um þau sérstaka umræðu. Það er ein skýringin. Önnur skýringin felst í því sem gerðist um áramót. Hvað gerðist þá? Það urðu ráðherraskipti. Hv. þm. Jón Bjarnason, hæstv. fyrrverandi ráðherra, vék úr ríkisstjórn og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra — ég vona að ég sé ekki að gleyma neinu — vék úr stóli fjármálaráðherra. Getur verið að annar hvor þessara einstaklinga, hv. þm. Jón Bjarnason eða hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, hafi ekki viljað koma þessu máli í gegn?

Hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon kláraði ekki þetta mál í fjármálaráðherratíð sinni. Það var ekki fyrr en núverandi hæstv. fjármálaráðherra Oddný G. Harðardóttir tók við að frumvarpið leit dagsins ljós. Var það hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sem tafði fyrir málinu eða hv. þm. Jón Bjarnason? Ég mundi gjarnan vilja fá skýringar á þessu því mér finnst einfaldlega ekki fullnægjandi að málið liggi svona. Mér finnst þessi vinnubrögð bera keim af einhvers konar yfirhylmingu. Það er ekki verið að segja allan sannleikann, það er verið að skammta sannleikann í litlum skömmtum og þannig næst aldrei heildarmynd. Heiðarlegast hefði verið, eins og ég sagði í upphafi, að IPA-styrkirnir hefðu komið fram um leið og aðildarumsóknin var rædd og tekið á því í nefndaráliti. Við vitum hvað hefur gerst síðan. Endalausar ályktanir frá Vinstri grænum sem hafa farið í kringum þetta mál eins og köttur í kringum heitan graut og menn reynt að bera kápuna á báðum öxlum en við vitum að það fer aldrei vel.

Ég verð að ítreka eina ferðina enn að þau verkefni sem liggja hér undir eru góðra gjalda verð og eins og segir í minnihlutaáliti mínu og þingmanna Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurgeirs Sindra Sigurgeirssonar eru þetta verkefni sem að öllum líkindum hefði verið einfalt að ná pólitísku samkomulagi um á Alþingi. Við hefðum getað sameinast um að tryggja þeim fjármagn þegar betur áraði, eða við höfum alla vega haft tækifæri til að forgangsraða takmörkuðum fjármunum ríkissjóðs eins og við teljum þeim best varið. Það er búið að gera ráð fyrir 596 millj. kr. í fjárlögum yfirstandandi árs vegna þessara verkefna. Ég ítreka að þetta eru fín verkefni en ekki endilega þau sem við hefðum sett á oddinn. Ef ég ætti til dæmis að velja um það hvort Hagstofan ætti að uppfæra tölvukerfin sín eða skatturinn að uppfæra tölvukerfin sín eða halda úti spítalaþjónustu í Vestmannaeyjum þá held ég að spítalaþjónusta í Vestmannaeyjum yrði ofan á. Ef ég ætti að forgangsraða þessum verkefnum yrði að sjálfsögðu að taka heildstæða ákvörðun um þetta.

Þetta er í raun sama umræðan og við erum að fara í gegnum í öðru máli sem er á dagskrá þingsins, um Vaðlaheiðargöng. Vaðlaheiðargöng eru góðra gjalda verð, fín framkvæmd, en eiga þau að vera efst í forgangi þegar um ríkisframkvæmd er að ræða? Um þetta snýst málið. Það er það sem er svo óþolandi við þessa aðildarumsókn og allt þetta ferli, að vegna þeirrar stöðu sem uppi er í ríkisstjórninni þar sem menn eru ósammála og annar stjórnarflokkurinn berst gegn umsókninni, koma menn ekki fram og segja sannleikann um það hvernig málin líta út. IPA-styrkirnir eru styrkir sem er beinlínis ætlað að undirbúa Ísland undir aðild að Evrópusambandinu. Þetta er ekki flóknara en það. Það felst í nafni þeirra, það felst í allri hugmyndafræðinni á bak við þá, það felst í því hvað gert hefur verið við þessa styrki hjá öðrum þjóðum sem hafa farið í gegnum þetta prógramm. Þetta er ekkert flókið. Þess vegna er svo kostulegt að heyra talsmenn ríkisstjórnarinnar halda því fram að styrkirnir komi ekki til vegna aðlögunar heldur vegna þess að þetta séu svo góð verkefni.

Ég minnist orðaskipta hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar og hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar við þessa umræðu fyrir nokkrum dögum, þá snerist allt um það hvort þetta væru góð eða slæm verkefni. Auðvitað eru þetta fín verkefni. Málið snýst ekkert um það. Það snýst um að Evrópusambandið er að dæla inn peningum í ýmiss konar verkefni vegna þess að verið er að undirbúa aðild Íslands að Evrópusambandinu. Evrópusambandinu er svo sem ekkert um að kenna vegna þess að við Íslendingar sóttum um aðild. Þeir sóttu ekki um aðild að okkur, við sóttum um aðild að þeim. Þeir átta sig náttúrlega ekkert á stöðunni sem uppi er, að hér sæki land um aðild að Evrópusambandinu sem vill ekkert inn í Evrópusambandið fara. Það er einnig mikilvægt atriði sem ber að hafa í huga í þessu sambandi að með því að samþykkja þessa styrki er verið að gefa þau skilaboð héðan að við viljum endilega ganga inn í Evrópusambandið. En það eru skilaboð sem lýsa ekki þeim raunveruleika sem blasir við í dag.

Hvað hefur gerst síðan þetta kom fram? Hvað hefur gerst bara á síðustu viku eða tíu dögum? Það sem hefur gerst er að (Gripið fram í.) hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur bókað í utanríkismálanefnd andstöðu sína við aðildarumsóknina og lagt til að þjóðin verði að minnsta kosti spurð í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið. Hæstv. innanríkisráðherra hefur látið sömu skoðun í ljós. Hæstv. umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir hefur einnig gefið til kynna að hún vilji láta kjósa um hvort halda skuli áfram. Hv. þm. Jón Bjarnason og hv. þm. Atli Gíslason hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að draga umsóknina til baka. Allt ber að sama brunni, andstaðan við Evrópusambandsaðild hefur vaxið frekar en hitt. Umræðan er öll á þann veg og það að staðfesta þennan samning yrði í hróplegu ósamræmi við það sem er að gerast í landinu.