140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[12:05]
Horfa

Frsm. velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp sem felur í sér breytingar á kostnaðarþátttöku sjúkratryggðra einstaklinga í lyfjakostnaði. Hér er verið að leggja til nýtt greiðsluþátttökukerfi í lyfjakostnaði sjúkratryggðra einstaklinga þar sem gert er ráð fyrir þrepaskiptum kostnaði þannig að sjúkratryggðir einstaklingar greiða lyfjakostnað að fullu í fyrsta þrepi. Þegar ákveðinni fjárhæð er náð greiðir sjúklingur hluta af kostnaði og hlutur hans minnkar svo eftir því sem lyfjakostnaðurinn eykst og að sama skapi eykst greiðsluþátttaka sjúkratrygginga. Gert er ráð fyrir að hægt verði að fá fulla greiðsluþátttöku þegar lyfjakostnaður hefur náð ákveðinni fjárhæð við 12 mánaða tímabil.

Meiri hlutinn telur þetta kerfi sanngjarnara en núverandi kerfi og miðar að því að koma til móts við þá sem þurfa að nota mikið af lyfjum og þurfa því að bera mikinn lyfjakostnað. Þá er með kerfinu gert ráð fyrir því að eitt og sama kerfi gildi um öll lyf. Talsverð umræða hefur verið um að taka þyrfti í raun og veru inn allan heilbrigðiskostnað og er það svo sannarlega rétt en hér er stigið fyrsta skrefið sem við treystum okkur til á þessu stigi, þ.e. að ríkið taki aukinn þátt í lyfjakostnaði sjúkratryggðra eftir því sem kostnaðarhlutdeild þeirra er meiri.

Við 2. umr. kom fram breytingartillaga þess eðlis að atvinnuleitendur sem þiggja fullar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun njóti sömu greiðsluþátttöku og börn, öryrkjar og aldraðir. Eftir umræðu milli hinna lausnamiðuðu meðlima velferðarnefndar var ákveðið að draga þá breytingartillögu til baka og hér er því lögð fram breytingartillaga þess efnis að 9. efnismálsliður c-liðar 2. gr. falli brott. Hann hljómar þannig, með leyfi forseta:

„Um atvinnuleitendur sem fá greiddar fullar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun skulu gilda sömu reglur um greiðsluþátttöku og um elli- og örorkulífeyrisþega, börn og ungmenni á aldrinum 18–21 árs.“

Í áliti minni hluta velferðarnefndar kemur fram mjög eðlileg gagnrýni á þetta ákvæði, þess eðlis að fjöldi einstaklinga og fjölskyldna lifi af lágmarkslaunum sem eru lítið hærri en atvinnuleysisbætur og nýtur ekki slíkrar undanþágu. Þegar farið var að skoða málið kom auk þess í ljós að þetta kerfi getur verið mjög flókið í framkvæmd og eftirlit með því talsvert flókið. Við ætluðum eingöngu að taka þá sem væru á fullum atvinnuleysisbótum en auðvitað eru margir á hlutaatvinnuleysisbótum. Hér er því lögð fram breytingartillaga um að þetta ákvæði falli brott og verður það vonandi til þess að velferðarnefnd sem hefur unnið þetta mál mjög vel og þétt saman geti öll sammælst um efni málsins.