140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

umræður um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:21]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Hafa ber skilning á því að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki séð ljósið, hann var aðeins of upptekinn af Framsóknarflokknum hér rétt áðan.

Það er ljóst að vilji þingmanna er til þess að ræða þessi mál samhliða og ég vil fyrir hönd Samfylkingarinnar taka undir það. Það er ekki nema sjálfsagt, ef vilji er til þess, að við ræðum þessi tvö brýnu mál samhliða. Það er hægt að gera það hér um leið og málið kemur úr nefndinni, það síðara.

Nefndin hóf störf við veiðileyfagjaldið, hún lauk þeim störfum og málið er tilbúið til að koma inn í þennan sal og ekki nema sjálfsagt að það sé gert. Ef vilji stjórnarandstöðunnar er til þess að ræða þessi mál samhliða getum við gert það eftir helgina.

Í öðru lagi vil ég segja þetta, virðulegi forseti: Menn tala hér mikið um að löggjafarvaldið þurfi að vera sjálfstætt gagnvart framkvæmdarvaldinu en kvarta svo yfir því að hæstv. forsætisráðherra sé ekki viðstödd þessa umræðu. (Gripið fram í.) Málið er á forræði nefndarinnar, fulltrúar í atvinnuveganefnd munu bera þetta mál upp og stýra umræðum hér í dag, stjórnar og stjórnarandstöðu, (Forseti hringir.) og það er ekki nema vel að það sé gert. Sömuleiðis er sá ráðherra sem bar málið fram á sínum tíma staddur í salnum og mun fylgjast með umræðunni í dag.