140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[11:46]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni mikið réttlætismál varðandi lyfjakostnað sem gengur út á að jafna lyfjakostnað. Þarna er verið að jafna á milli lyfjategunda og sjúkdómaflokka og er jafnaður kostnaður milli þeirra sem hingað til hafa þurft að borga mjög mikinn lyfjakostnað, eru háðir lyfjum að staðaldri, og hinna sem minna þurfa á lyfjum að halda. Ég tek undir það að þetta er auðvitað bara fyrsta skrefið. Það þarf að jafna þetta almennt í heilbrigðiskerfinu og að því verður unnið í framhaldinu.

Mig langar aðeins að vekja athygli á því að það kom gagnrýni í lokin varðandi gildistímann, þ.e. reiknað er með að lögin taki gildi 1. október. Ég heyrði við 3. umr. að gefið var fyrirheit um að menn fylgdust með málunum og að staðan yrði metin í byrjun september og ef á þyrfti að halda yrði upphaf gildistímans ef til vill fært til áramóta.

Ég vildi vekja athygli á því hér og taka undir þau sjónarmið sem fram komu við 3. umr. í gær en fagna því að málið er komið til afgreiðslu. Ég þakka velferðarnefndinni fyrir störf hennar. Það er leitt að ekki skuli hafa nást samstaða um þetta en eftir sem áður hefur hún unnið afar vel að þessu máli.