140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

fundarstjórn.

[19:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þær athugasemdir sem komið hafa fram frá þingmönnum um skort á upplýsingum um framhald þingfunda eru hárréttar. Það er mjög sérkennilegt að við séum að ræða þessi frumvörp að kvöldi föstudags fyrir sjómannadagshelgi. Hátíðahöld hefjast á morgun víða um land og ég þykist vita að ýmsir þingmenn, sérstaklega þeir sem eru lengra að komnir, (Gripið fram í.) vilji heimsækja byggðarlög í sínum kjördæmum til að taka þátt í sjómannadagshátíðahöldunum með fólkinu þar.

Mér finnst með ólíkindum ef forseti getur ekki gefið okkur einhverjar vísbendingar um hversu lengi verður haldið áfram hér í kvöld eða hvernig fundum þingsins verður háttað á næstu dögum. Um það höfum við engar upplýsingar.