140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[11:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Það er mjög ósanngjarnt að koma í ræðustól og halda því fram að þingmenn tali ekki fyrir hugsjónum sínum eða hugmyndafræði heldur láti að mati samþingsmanna sinna stjórnast af annarlegum hvötum eða af annars konar hagsmunum.

Ég vil af þessu tilefni fá að minna hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur á að í umsögn Vesturbyggðar, sem henni hefur hingað til verið mjög annt um, er verið að tala um að bein áhrif á samfélagið þar verði þau að um 220 milljónir fari í greiðslu á veiðigjaldi en að 3–12 milljónir skili sér til baka. Þetta bætist við þá staðreynd að nú þegar liggja fyrir þær tölur að 75% af öllu opinberu fé er ráðstafað á höfuðborgarsvæðinu en aðeins 42% er raunverulega aflað þar. Það er ekki einkennilegt að Byggðastofnun ljúki umsögn sinni um veiðigjaldið með því að benda á að þetta sé landsbyggðarskattur. Og gegn því mun ég berjast.