140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:53]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Já, það er nefnilega góð spurning með almannahagsmunina, hverjir eru þeir? Almannahagsmunirnir eru velferð byggðarlaganna í landinu, búseta fólks, atvinnuöryggi og atvinnulíf almennt. Á þessu veltur, þetta er það sem málið snýst um.

Það er mikil flóra í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum í dag. Sum eru verulega sterk. Þau eru ekki mörg sem eru verulega sterk en þau eru býsna mörg sem standa höllum fæti vegna mikillar skuldsetningar vegna þess að rangar ákvarðanir hafa verið teknar í rekstri, vegna þess að fjárfestingarstefnan hefur kannski ekki verið rétt, skuldsetningin mikil, m.a. fyrir utan greinina sjálfa í óskyldum og ótengdum hlutum. Það er þetta sem svo mörgum svíður, það er þetta sem málið snýst um.

Við þurfum að fá eðlileg og heilbrigð rekstrarskilyrði fyrir þessa grein þannig að fyrirtækin skili til samfélagsins þeim tekjum (Forseti hringir.) sem þeim ber þannig að samfélag geti þrifist og búseta og atvinnuskilyrði verið stöðug í landinu.