140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið og þessa upprifjun.

Það er þannig að síðan þetta kerfi var sett á — vitanlega voru sett lög og lögum breytt um sjávarútveginn — hefur lögunum margsinnis verið breytt. Reynt hefur verið að laga kerfið að tímanum hverju sinni og bregðast við reynslu og öðru því um líku.

Það sem við erum með í höndunum í dag er líklega eitt besta sjávarútvegskerfi sem menn hafa séð, þ.e. ef við horfum í það minnsta til fyrirtækjanna, það hefur orðið hagræðing í greininni, okkur virðist einnig ganga ágætlega að byggja upp fiskstofnana o.s.frv.

Þeir sem eru búnir að vera í greininni undanfarið, við skulum segja 15 til 20 ár, eru vitanlega búnir að spila eftir þeim leikreglum sem Alþingi setti. Þær leikreglur gerðu ráð fyrir að menn gætu keypt sér aflaheimildir. Aflaheimildir gengu kaupum og sölum. Þeir aðilar sitja margir hverjir uppi með miklar skuldir. Við hljótum því að þurfa, ef við ætlum að láta greinina greiða meiri skatt því að þetta er ekkert annað en skattur, að horfa til aðferða sem koma hlutfallslega jafnt niður á alla. Mér sýnist að þessi aðferðafræði geri það ekki.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það sem hann nefndi hér, og ég ætlaði aðeins að koma að í ræðu minni á eftir, þ.e. þau orð sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lét falla á sjómannadaginn um sjómannaafsláttinn. Er það skynsamlegt að setja málið fram og rökstyðja það með þeim hætti að sjómenn hafi — að rökin fyrir því að taka af einni stétt einhvers konar — ég ætla ekki að segja fríðindi en einhvers konar, já, það sem gert er vel við þá sem eru að vinna, taka það af einni stétt en ekki annarri í ljósi þess (Forseti hringir.) að þá hafi þurft að bjarga Íslandi frá því að verða gjaldþrota?