140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ákaflega málefnalega og yfirgripsmikla ræðu. Hv. þingmaður kom víða við og vitnaði meðal annars í gögn sérfræðinga sem öll hníga í sömu átt. Ég hefði svo sannarlega kosið að fleiri stjórnarliðar hefur verið viðstaddir þessa umræðu vegna þess að hv. þingmaður lagði þannig inn í hana að það kallaði vissulega á viðhorf stjórnarliða til þeirrar röksemdafærslu sem hv. þingmaður beitti áðan.

Það er alveg rétt eins og hann benti hérna á og fór mjög rækilega yfir með tilvísan í ýmsar skýrslur sem hafa verið lagðar fram að það hnígur allt í sömu áttina. Þegar maður veltir þessu fyrir sér og við skoðum þetta er óskaplegt áhyggjuefni að maður getur hvergi nokkurs staðar fundið nein sérfræðiálit sem benda til þess að þetta frumvarp geti gengið upp. Það kom fram þegar frumvarpið var upphaflega lagt fram og við fórum að skoða þetta, þ.e. sérfræðingar okkar í atvinnuveganefnd, að þetta var á svo veikum grunni reist að í raun og veru hefði þetta gjald ekki verið 15 eða 20 milljarðar heldur 50 milljarðar ef menn hefðu beitt útreikningsaðferð frumvarpsins. Það hefði gert miklu meira en að hreinsa upp allan hagnað í greininni, hún hefði sennilega farið meira og minna á hausinn fyrir árslok.

Það sem er athyglisvert í þessu sambandi og ég vil spyrja hv. þingmann um er að menn hafa velt fyrir sér og sagt sem svo: Gjaldið sem við erum að taka núna, 15–20 milljarðar, sýnir okkur að við höfum gert mikil mistök í fortíðinni í að hafa ekki farið fyrr í þessa gjaldtöku.

En er ekki forsendan fyrir því að við erum yfir höfuð að tala um gjaldtöku í sjávarútvegi sú að mikil arðsemisaukning hefur orðið í greininni? Það kemur til dæmis fram í skýrslu sem við höfum undir höndum að arðsemin á ári að meðaltali alveg frá árinu 1984, við upptöku kvótakerfisins, hefur verið 0,5% á ári. Ég efast um að margar atvinnugreinar geti státað af slíku. Ég efast um að mörg þjóðfélög geti státað af því að meginatvinnugrein þeirra (Forseti hringir.) auki arðsemi sína um 0,5% á ári og skapi þannig möguleika (Forseti hringir.) á umræðunni um þennan veiðiskatt.