140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svar hv. þingmanns kemur mér svo sem ekki mikið á óvart, þetta er það svar sem ég átti frekar von á. En ég vildi fá staðfestingu á því að hv. þingmaður hefði sama skilning á vandanum og ég. Raunar gerði hv. þingmaður betur, hún kom mjög vel orðum að því sem ég held að sé meginvandamálið við þessa umræðu og hvernig þessi mál hafa verið sett fram. Þau snúast um sérhagsmuni Samfylkingarinnar, það er kjarni málsins, þau snúast ekki um heildarhagsmuni, ekki um hagsmuni starfsfólks í sjávarútvegi, hagsmuni þeirra sem starfa í sjávarklasanum svokallaða, þ.e. í tengdum greinum, og ekki um hagsmuni almennings í landinu, Reykvíkinga, Hafnfirðinga eða annarra. Það er einfaldlega ekki litið til þessara heildaráhrifa.

Að vísu er því lýst þannig í skýringum við frumvarpið að markmið með því sé að fiskveiðar séu sem hagkvæmastar. Með leyfi forseta vitna ég beint í skýringar við frumvarpið upp úr sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar:

„Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.“

Allt gengur þetta í berhögg við þær afleiðingar sem þessi frumvörp hefðu næðu þau fram að ganga. Það eru ekki bara mín orð, það eru orð og mat nánast allra, hugsanlega allra, þeirra sérfræðinga sem lagt hafa mat á málið. Því velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að menn þurfi að byrja upp á nýtt, byrja á sambærilegum grunni og lagður var til grundvallar í sáttanefndinni svokölluðu, það sé mikilvægt að menn nálgist þetta mál ekki sem pólitískt sérhagsmunamál eins flokks heldur fallist á það að fulltrúar allra flokka og sérstaklega auðvitað þeirra sem starfa í greininni og sérfræðingar (Forseti hringir.) komi að undirbúningi málsins.