140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þingmaður þekkir hafa sjávarútvegsráðherrar Sjálfstæðisflokksins um langt árabil staðið að ýmsum sértækum aðgerðum til þess að milda byggðaáhrif kvótakerfisins og hafa haft til þess fullan stuðning flokksins. Hitt er annað mál að það er vitað að þeim mun meiri eða víðtækari sem svona aðgerðir eru, þeim mun meira draga þær úr hagkvæmni kerfisins í heild. Þarna verður því að ganga fram af töluverðri varkárni til þess að fara ekki í millifærslukerfi sem í raun eyðileggur hagræðingaráhrifin. Í mínum flokki eins og áreiðanlega í flokki hv. þingmanns hefur stundum verið ágreiningur um það hversu langt skuli ganga í þessum efnum vegna þess að það sem einum kann að þykja réttlæti kann öðrum að þykja óréttlæti eins og við þekkjum.

Aðalatriðið er hins vegar það að með því að taka risastórar fjárhæðir út úr greininni (Forseti hringir.) er auðvitað fyrst og fremst verið að rýra hag landsbyggðarinnar. Þó að einhverjir molar komi til baka úr ríkissjóði er það ekki nægilegt til að vega upp á móti hinum neikvæðu áhrifum gjaldsins í því formi sem hér er lagt til.