140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:03]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnaleg og heiðarleg svör. Ég held nefnilega að það sé mikilvægt að það komi fram að við sem erum ósammála þeim tillögum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram höfum lagt fram okkar sýn á málin. Við í Framsóknarflokknum höfum verið með mjög ítarlega útfærða stefnu í sjávarútvegsmálum almennt og einmitt talað um að það sé réttlætanlegt í því árferði sem við búum við að hækka auðlindarentuna. Ég fagna því að hv. þingmaður sé sammála okkur um það.

Það segir okkur líka, sem er sorglegt, að málið er komið í þennan farveg af pólitískum ástæðum. Það er ekki þannig að himinn og haf sé á milli mælenda hér á þingi heldur vill Samfylkingin eða forsvarsmenn hennar einfaldlega hafa málið í ágreiningi. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur stóðu að sáttatillögunni svokölluðu og allir aðilar komu þar að borðinu, en Samfylkingin virðist vilja rjúfa þá sátt og ég tel það mjög miður.

Ég mundi gjarnan vilja heyra hvaða áhrif hv. þingmaður telur að þessar breytingar komi til með að hafa á okkar ágæta kjördæmi vegna þess að sjávarútvegur er einfaldlega undirstöðuatvinnugrein þar eins og reyndar landbúnaður og álframleiðsla í Fjarðabyggð og vonandi víðar, hvað sem öðru líður. Nýsköpun er einmitt mest í sjávarútveginum og skapar afleidd störf í miklum mæli.