140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

skert þjónusta við landsbyggðina.

[14:21]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í sérstakri umræðu fyrirkomulag þjónustu á landsbyggðinni. Tilefnið er lokun sjö útibúa Landsbankans á landsbyggðinni um mánaðamótin með afar skömmum fyrirvara og án undangenginnar umræðu. Víða á þessum stöðum eru engin önnur bankaútibú svo að um algjöra lokun bankaþjónustu er að ræða. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem farið er í slíkar lokanir. Mikil umræða varð um slíka lokun á Stöðvarfirði árið 2010 og eftir þá umræðu hélt ég að leikurinn yrði ekki endurtekinn án umræðu. Þá var kallað eftir byggðastefnu Landsbankans og svörin voru þau að hún væri í smíðum. Ég leitaði á heimasíðunni en sá hvergi umfjöllun um hana þar en talað er um að samfélagsstefna sé í smíðum.

En þar eru greinilega komin ákveðin leiðarljós því að svar Landsbanka allra landsmanna um samfélagslega ábyrgð gagnvart litlum byggðarlögum á heimasíðunni er eftirfarandi:

„Samfélagsleg ábyrgð felst ekki í því að reka afgreiðslustaði sem ekki bera sig. Samfélagsleg ábyrgð felst í því að skapa arðbær störf. Þeirri stefnu fylgir bankinn í þessum aðgerðum.“

Ég verð að viðurkenna að skilningur minn og Landsbankans fer ekki saman í því hvað felst í samfélagslegri ábyrgð. Í mínum huga eiga byggðastefna og samfélagsleg ábyrgð ekki síst að felast í því að viðurkenna að strjálbýlt land og þjónusta við það er ekki alltaf arðbært í efnahagslegu tilliti en það eru samfélagslegir og efnahagslegir hagsmunir allra landsmanna að halda landinu í byggð. Til að slíkt megi vera mögulegt verður að vera lágmarksþjónusta vítt og breitt um landið. Bankastarfsemi er dæmi um slíka þjónustu.

Auðvitað hefur þörfin fyrir bankaútibú og langan afgreiðslutíma minnkað með tilkomu bættra samgangna, netbanka og tölvupósts, en það er hópur fólks sem ekki getur nýtt sér netþjónustu og ferðast helst ekki um fjallvegi og erfiðar skriður til að sækja sér lágmarksþjónustu. Mér finnst því að leita hefði átt annarra lausna en endanlegrar lokunar, svo sem samstarfs við aðrar stofnanir um sameiginlega afgreiðslustaði og afgreiðslutíma eins og víða hefur verið gert. Slík viðleitni er að mínu mati lágmarkið í samfélagslegri ábyrgð. (Forseti hringir.) Eftir slíkri viðleitni kalla ég hjá fyrirtæki sem vill vera fyrirtæki allra landsmanna.