140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:28]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég verð að viðurkenna það hér og nú að ég er ekki í stakk búin og hef ekki forsendur til að velta því upp með hvaða hætti eða hvernig eigi að reikna og hvaða aðferðafræði eigi að hafa þegar veiðigjaldið er annars vegar. Ég hefði kosið að það væri eins og sagt er í þessu frumvarpi og get fallist á að það sé einhver föst greiðsla sem allir inna af hendi og síðan miðist annar þáttur við hagnað fyrirtækisins þegar frá er dreginn kostnaður. Þá verður líka að hafa í huga að sú prósenta sem við ætlum að leggja á má aldrei verða svo há að sá sem rekur fyrirtækið sjái sér ekki hag í því að reka það með arði. Við þekkjum það frá því á árum áður að þannig var það ekki. Þá var gróðinn einkavæddur, eins og við segjum stundum, hann fór í fyrirtækin en tapið var þjóðnýtt. Þannig útgerð ætlum við ekki að fá aftur. Aldrei.

Ég horfi til þess að hægt sé að hafa tvo þætti, annars vegar fast gjald og hins vegar einhverja útreikninga á arðseminni eftir að hún liggur fyrir. Hversu hátt það á að vera verður alltaf, virðulegur forseti, að miðast við að hvati sé fyrir fyrirtækin að reka sig vel til að skila sem mestu inn í fyrirtækin og sem mestu til samfélagsins og að sjálfsögðu líka til eigenda sinna. Hvatinn verður að vera fyrir hendi annars erum við með ónýtt kerfi.