140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þingmanni um að æskilegt væri að hafa reikniregluna sem stuðst er við við útreikning auðlindagjaldsins sem einfaldasta. Eins vil ég líka taka undir með hv. þingmanni um að eðlilegast væri að rætt væri um að greitt yrði auðlindagjald af öllum auðlindum landsins.

Hv. þingmaður kom töluvert inn á byggðatengingar í ræðu sinni og hefur svo sem gert það oft áður. Ég skil breytingartillögu hans og hv. þm. Atla Gíslasonar þannig að koma eigi til móts við þær byggðir sem verið er að færa tekjurnar frá með þessum landsbyggðarskatti. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að í þessu frumvarpi og í hinu frumvarpinu séu nægjanlegar byggðatengingar eins og hann hefur svo oft talað fyrir og hefur sýnt það í frumvörpum sínum. Eru þær nægilegar að öðru leyti, jafnvel þótt þessi tillaga um útdeilingu á veiðigjaldinu upp á 40% til baka til sveitarfélaganna og sjávarbyggðanna, verði hugsanlega samþykkt?

Nú er búið að kynna svokallaða fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar um hvernig eigi að ráðstafa hluta af auðlindagjaldinu, og þar finnst mér verið að kaupa menn til fylgis. Ég vil spyrja hvort hv. þingmaður geti tekið undir það. Mér finnst þetta svipað og næsta mál sem er á dagskrá þegar þessum umræðum lýkur, um svokallaða IPA-styrki. Þar er búið að setja fé í ákveðin verkefni og þá er auðvitað mjög mikilvægt að málið verði samþykkt til þess að verkefnin gangi eftir. Mér finnst fingraförin á þessu vera svipuð, fjármunum er útdeilt áður en búið er að afla þeirra. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir það sjónarmið mitt að þetta megi heita sambærileg meðferð á málum.