140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma því að í þessu andsvari að ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa staðið vörð um svokallaðan AVS-sjóð, rannsóknasjóð sjávarútvegsins. Það var staðfest í ræðu hv. þingmanns að sumir hafa hugmyndir um að leggja hann niður og reyna að koma honum í önnur verkefni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann vék að því í ræðu sinni, um frumvarpið sem lagt fram síðastliðið vor og hann mælti fyrir. Ég tek undir að mér þótti líka mjög ósmekklegt hvernig einstaka hæstv. ráðherrar lýstu því sem einhvers konar bílslysi en höfðu þegar samþykkt að það yrði lagt fram.

Ég man eftir því að í því voru þessar hugmyndir hv. þingmanns sem eru í þeirri breytingartillögu sem hann mælir fyrir núna, um að færa hluta af auðlindagjaldinu aftur til sjávarbyggðanna. Þá var það afgreitt þannig af þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að það stangaðist á við stjórnarskrána. Svo náðist aldrei að ræða það og skoða almennilega í meðförum þingsins af því að málið dagaði uppi, ef ég má nota það orðalag. Voru þessar athugasemdir hæstv. fjármálaráðherra skoðaðar sérstaklega í ráðuneytinu á þeim tíma?