140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir ræðu hans. Ég er hér með rit sem heitir Hafið, bláa hafið — Áherslur og tillögur Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum, gefið út í mars 2009 eða fyrir rúmum þremur árum. Þetta er gefið út rétt fyrir kosningarnar. Nú hefur komið í ljós að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Steingrímur J. Sigfússon var búinn að semja um það við Samfylkinguna fyrir kosningar að greiða fyrir því að umsókn um aðild að Evrópusambandinu færi inn og það vissu fáir.

Í ljósi þess langar mig til að lesa upp úr þessum bæklingi, með leyfi forseta:

„Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs sem fram undan er. Þótt íslenskur sjávarútvegur glími nú við erfiðleika vegna mikilla skulda og versnandi efnahagsástands á sínum helstu markaðssvæðum er ljóst að möguleikar Íslendinga til gjaldeyrisöflunar og verðmætasköpunar liggja að stórum hluta í sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn mun að öllum líkindum enn á ný reynast það hreyfiafl sem knýr íslenskt hagkerfi áfram þegar mest á reynir.“

Hver er skoðun þingmannsins á því að nú virðist hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem er hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, hafa skipt um skoðun í þessu? Flestir þeir aðilar sem hafa komið fyrir atvinnuveganefnd, ef ekki allir, hafa gagnrýnt þetta frumvarp mjög mikið og telja að það rústi sjávarútveginum og sérstaklega verði landsbyggðin illa úti verði það að veruleika.

Úr því að þingmaðurinn hv. Jón Bjarnason situr í þingflokki Vinstri grænna, vil ég spyrja: Hefur farið fram umræða um það hvers vegna hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur umpólast í þessu máli líka?