140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

samþjöppun á fjármálamarkaði.

[16:57]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf):

Frú forseti. Ein meginforsenda þess að hér á landi þrífist lífvænlegt samfélag er að við tryggjum það sem best að á hverjum tíma fái þau samfélög sem hér hafa myndast, lítil og stór, að þróast og þroskast með breyttum samfélagsháttum. Til þess verks duga engir betur en það fólk sem samfélögin byggir. Það er hlutverk ríkisins að styðja og styrkja það fólk til sjálfsbjargar og til þess að það geti notið sköpunar og framkvæmdagleði sinnar, hvort heldur er um að ræða atvinnu og nýsköpun eða hvíld frá störfum. Þetta er og hefur ætíð verið grunnstef jafnaðarstefnunnar. Til að þetta sé mögulegt verður ríkisvaldið að tryggja aðgang að grunnþjónustu á sviði menntunar og heilbrigðisþjónustu og ekki síður á sviði löggæslu og aðgengis að dómstólum og yfirvöldum.

Einn er sá þáttur sem við ræðum nú sem ekki má heldur vanrækja en það er aðgengi að fjármálaþjónustu, jafnnauðsynleg og hún er öllu fólki auk þess sem hún tryggir staðbundna þekkingu og fjölbreytt atvinnutækifæri í smærri byggðarlögum. Á þessu hefur orðið misbrestur. Annars vegar vegna þeirra ófara sem bankakerfið skapaði sér, þar með talið óvarleg þensla sparisjóðanna og röng stefnumótun þeirra. Við núverandi aðstæður ber okkur skylda til að skapa forsendur fyrir því að banka- og fjármálaþjónusta fái þrifist um landið allt og telji samþjappaðir einkabankar það ekki hlutverk sitt verður ríkið að bregðast við.

Í þeirri stöðu sem við erum nú er tvennt í boði. Annars vegar að skerpa samfélagslegt hlutverk þess banka sem ríkið fer með eignarhald á, þ.e. Landsbankans, og ef eigendastefna bankans er ekki nógu skýr þurfum við að skýra hana og laga hana. Hins vegar ber okkur að sjá til þess að sparisjóðum í almannaeign verði búin þau skilyrði að þeim verði fært að stunda sjálfbæra fjármálaþjónustu samhliða því að vera stoð í sínu byggðarlagi. Ég tek undir með málshefjanda um nauðsyn þess að gæta að þessum hagsmunum þá er eignarhlutur ríkisins er seldur.

Við höfum gott tækifæri á þessu þingi, ágætir þingmenn, til að gera á þessu bragarbót þegar við göngum (Forseti hringir.) til atkvæða um ný lög um sparisjóði.