140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar bæjaryfirvöld í Reykjavík reikna ég með að þau séu það upptekin að mæla vegalengdir yfir í öskutunnu borgarbúa að þau hafi lítinn tíma til að setja sig inn í svona mál.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir, að gjaldið sem verður lagt á sjávarútveginn kemur ekki bara niður á sjávarútvegsfyrirtækjunum og landsbyggðinni heldur líka þeim sem þjónusta þessi fyrirtæki.

Þetta liggur svona: Ef gjaldið er lagt á þennan rekstur með þeim hætti sem til er stofnað þá skerðist mjög fjárfestingargeta þessara atvinnufyrirtækja, hún verður minni, sem þýðir að fyrirtæki sem þjónustar þessa grein fá minni viðskipti og það dregur úr öllu.

Fyrirtæki eins og Marel, sem eiga uppruna sinn í því að þjónusta sjávarútveginn, byggja m.a. á því að hér hafi verið til staðar mjög öflugur heimamarkaður, öflug fyrirtæki sem gátu fjárfest í tækni og tekið áhættu í slíkum fjárfestingum, áhættu í tækniþróun. Fyrirtæki sem berjast í bökkum og eiga ekki fjármuni til að fjárfesta og taka áhættu í slíkum fjárfestingum verða ekki góður grunnur fyrir hátæknifyrirtæki sem síðan búa til hundruð starfa fyrir vel menntaða Íslendinga. Það er einmitt þetta samhengi sem mér sýnist hv. flutningsmönnum hafa yfirsést í þessu máli.

Auðvitað er það rétt sem hv. þingmaður nefnir hér, að þessi skattlagning leggst mismunandi á byggðir landsins. Hún leggst beint á og kemur mjög hratt fram í hinum smærri byggðum, en hún mun líka koma fram á höfuðborgarsvæðinu.

Það er akkúrat þetta sem ég nefndi í ræðu minni í gær. Það er miklu betra fyrir þjóðfélagið, miklu betra fyrir hagkerfið að þessi fyrirtæki séu öflug og geti fjárfest og veitt síðan arðinum út þannig að til verði ný tækifæri og nýir klasar myndist eins og hefur gerst í kringum sjávarútveginn, tækifæri þar sem felast vel launuð störf sem eru ekki beint í sjávarútvegi heldur tæknigeiranum sem styður við sjávarútveginn.