140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Hér er komið til 2. umr. frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um veiðigjöld. Í fyrri umræðum um þetta mál vakti ég máls á fjölmörgum atriðum sem lúta að undirbúningi þess að málið kom fram hér á þinginu, algjörum skorti á samráði og síðan því meginsjónarmiði mínu að hér væri allt of langt gengið í gjaldtökunni sem frumvarpið snýst um.

Það er ágætt að rifja upp í örstuttu máli nokkur meginatriði sem snúa að aðdraganda þess að málið er hér fram komið. Í því sambandi er mikilvægt að geta þess um leið að þetta mál kemur ekki inn í þingið einangrað sem tillaga til breytinga á umgjörð sjávarútvegsins heldur kemur það samhliða öðru máli sem tengist stjórn fiskveiða. En um þessi mál, um það hvaða gjöld sé hægt að leggja á sjávarútveginn og hvað sé sanngjarnt framlag sjávarútvegsins til þjóðarinnar, sanngjarnt afgjald fyrir aðganginn að auðlindinni, hefur lengi verið rætt og mikið verið deilt um í langan tíma. Þannig var töluvert mikið tekist á um þau mál og mjög ólík sjónarmið uppi áður en svokölluð auðlindanefnd var sett á laggirnar en hún skilaði álitsgerð með fylgiskjölum í september árið 2000.

Þá skýrslu hef ég hér í höndum og vil rifja upp að sú nefnd nálgaðist þetta verkefni út frá miklu víðara sjónarhorni en ríkisstjórnin hefur gert í þessu einstaka máli. Sú nefnd leit á afgjald fyrir aðgang að nýtingu náttúruauðlinda í miklu víðara samhengi en bara í tengslum við sjávarútveginn einan. Sú nefnd fjallaði líka um hugmyndir um að taka upp í stjórnarskrá skýrt ákvæði sem tæki af skarið um að náttúruauðlindir Íslands væru í þjóðareign. Síðan hefur reyndar talsvert verið tekist á um inntak hugtaksins þjóðareign en málið var skoðað í miklu víðara samhengi en ríkisstjórnin hefur gert með þessu frumvarpi. Ég vísa í því sambandi til þess að nefndin tók til sérstakrar skoðunar vatnsaflið, jarðhita og námur, auðlindir á eða undir sjávarbotni, rafsegulbylgjur til fjarskipta, umhverfisgæði og loks var viðruð hugmynd um sérstakan þjóðarsjóð sem stundum hefur verið nefndur auðlindasjóður.

Auk alls þessa ræddi auðlindanefndin að sjálfsögðu um nytjastofnana á Íslandsmiðum. Það var rauði þráðurinn í niðurstöðu nefndarinnar sem skilaði af sér fyrir bráðum tólf árum að það væri mikilvægt, til að ná fram frekari sátt um nýtingu sjávarauðlindarinnar á Íslandi, að gera ákveðna kerfisbreytingu sem gæti til dæmis falist í gerð nýtingarsamninga og jafnframt að tekin yrði upp gjaldtaka, hófleg gjaldtaka fyrir nýtingarsamninga.

Frá því að nefndin skilaði af sér hefur margt verið sagt og áfram verið tekist á í þessum efnum. En sú grundvallarbreyting var gerð að veiðigjald var tekið upp. Það er óhætt að segja að það hafi verið í anda þess sem rætt var um við starf auðlindanefndarinnar, nokkuð hóflegt gjald. Það var ávallt lagt upp með það. En mikilvægt er að hafa í huga að alltaf var horft til þess að leggja gjald á auðlindarentuna, á það sem stundum hefur verið kallað í þessari umræðu umframhagnaður.

Það sem gerst hefur síðan hefur meira snúist um ákvæðið í stjórnarskránni sem ég vék stuttlega að. Átök hafa verið í þinginu um það hvernig það mætti orðast. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram sína hugmynd að slíku ákvæði, stjórnarflokkarnir voru með sína útgáfu þegar þeir störfuðu sem minnihlutaríkisstjórn með stuðningi Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar 2009. Áfram hafa síðan þróast hugmyndir í skýrslu stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndin var með sína útgáfu af þessu en minna hefur verið rætt um auðlindarentuna sem slíka.

Á þessu kjörtímabili var settur saman starfshópur allra hagsmunaaðila, og stjórnmálaflokkarnir áttu þar sína fulltrúa, sem skilaði skýrslu í september 2010 sem hét Skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Vissulega er aðaláherslan í henni á stjórn fiskveiða og minni áhersla á auðlindagjaldið sem slíkt. Hins vegar er engum blöðum um það að fletta að starfshópurinn leit þannig á að fyrst þyrfti að útkljá ágreining um stjórn fiskveiða til lengri tíma áður en menn kæmust að niðurstöðu um gjaldtöku fyrir nýtingarréttinn.

Það er augljóst, vegna þess að gengið er út frá því í skýrslunni, meiri hluti starfshópsins kemst að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að færa sig úr varanlegri úthlutun aflaheimilda yfir í tímabundna samninga og fyrir það eigi að koma gjald. Það sjá allir í hendi sér að þar er verið að tala um einhvers konar gjald í anda þess sem við ræðum hér, einhvers konar auðlindarentugjald fyrir aðgang að auðlindinni, gjald sem greitt er vegna þess að í skjóli slíks aðgangs myndist sérstakur hagnaður, umframhagnaður, af nýtingu auðlindarinnar.

Þrátt fyrir þá vinnu sem átti sér stað á þessu kjörtímabili, þrátt fyrir þá miklu vinnu sem átti sér stað á fyrri kjörtímabilum og allt það sem sagt hefur verið fram á þennan dag, gerðist það fyrr á þessu ári að sjávarútvegsráðherrann lokaði sig af, hunsaði meira eða minna allt það sem áður hafði verið sagt og unnið með og hóf undirbúning að framlagningu þessa frumvarps. Eins og margoft hefur komið fram í fyrri umræðum um þetta mál, og í þeirri sem nú stendur yfir, var ekkert samráð haft við nokkurn mann um þá útfærslu sem birtist í frumvarpinu.

Í þessari 2. umr. um málið er dálítið skrautlegt, ég held það megi segja það, kannski líka dálítið grátbroslegt, að sjá nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar þar sem nefndin taldi tilefni til að kalla til slíkan fjölda umsagnaraðila og álitsgjafa á frumvarpinu að þeir rúmast ekki á heilli blaðsíðu. Það tekur langt á aðra blaðsíðu að telja alla þá upp sem nefndin taldi að þyrftu að hafa skoðun á málinu, fá tækifæri til að tjá sig um það. Enginn þeirra sem var kallaður til umsagnar í nefndinni sagðist áður hafa fengið tækifæri til að tjá sig um málið við ráðherrann, enginn. Ekkert samband um nokkurn skapaðan hlut. Það er býsna athyglisvert þegar við skoðum síðan breytingarnar sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu vegna þess að þá kemur í ljós að ráðherrann og ráðuneytið hefði kannski betur leitað frekari ráðgjafar og álits utan ráðuneytisins áður en ráðist var í gerð frumvarpsins.

Áður en ég fer út í þau efnisatriði sem renna stoðum undir það sem ég er að segja vil ég minna á að í upphaflega frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ríkið taki til sín í formi veiðigjalds um það bil 25 milljarða á ári. 25 milljarða í viðbótargjald af útgerðinni í landinu, gjald sem að hluta til er hugsað sem gjald vegna fiskvinnslunnar en það er allt innheimt af útgerðinni. Þetta sama gjald hefur til skamms tíma verið um og í kringum 1 milljarð en hefur smám saman verið að hækka í tíð þessarar ríkisstjórnar upp í 2 til 3 milljarða. Til skamms tíma var gert ráð fyrir að það yrði á næstu árum á bilinu 9 til 10 milljarðar.

Í október á síðasta ári kom fram skýrsla frá ríkisstjórninni um efnahagsmálin á árunum 2012–2015 þar sem gerð var grein fyrir því að hugmyndir ríkisstjórnarinnar um aukið veiðigjald ættu að skila ríkinu um það bil 9,3 milljörðum, hygg ég hafi verið, á milli 9 og 10 milljörðum. Þetta var í október. Eftir að ríkisstjórnin hafði starfað í tvö og hálft ár hafði hún komist að þeirri niðurstöðu að það væri hóflegt og skynsamlegt að taka um það bil 9 til 10 milljarða í nýtt viðbótargjald, að færa gjald sem áður hefði verið á bilinu 1 til 3 milljarðar upp í 9 til 10 milljarða. Það kom fram í skýrslunni frá því í október um að þetta yrði gjaldið miðað við horfur um aflabrögð næstu árin.

Nokkrum vikum síðar er þessu frumvarpi síðan teflt fram. Þá hafði sjávarútvegsráðherrann fundið, ekki 1 eða 2 eða 5, ekki 10, nei, 15 milljarða í viðbót sem hann ætlaði að finna. 15 milljarðar höfðu bæst í sarpinn miðað við það sem ríkisstjórnin kynnti að yrði gjaldlagning á sjávarútveginn í október. Það var í október sem sagt var að þetta yrði gjaldið næstu árin. Á nokkrum vikum voru fundnir 15 milljarðar og sú upphæð kynnt áfram sem auðlindarenta, sem gjald sem ætti að taka vegna umframhagnaðarins. Ekki vegna venjulegs hagnaðar sjávarútvegsfyrirtækjanna. Nei, vegna þess að sjávarútvegurinn mundi mynda svo mikinn umframhagnað að hægt væri að sækja 15 milljarða til viðbótar við það sem áður var talið, nokkrum vikum fyrr. Algjörlega óskiljanlegt og órökstutt með öllu.

Höfum í huga að strax og fyrstu umsagnaraðilar komu inn í atvinnuveganefnd, eins og ágætlega er lýst í nefndaráliti 1. minna hluta atvinnuveganefndar, þeirra hv. þingmanna Einars K. Guðfinnssonar og Jóns Gunnarssonar, kom fram að þessir útreikningar væru á misskilningi byggðir, þeir væru byggðir á gögnum sem ekki væru hugsuð til útreikninga af þessu tagi. Það er vel rakið í nefndaráliti hv. þingmanna 1. minni hluta að strax hafi komið í ljós að slíkir ágallar væru á útreikningnum að ekki væri hægt að byggja á þeim. Manni verður auðvitað hugsað til þess, ekki síst vegna allrar umræðunnar sem átt hefur sér stað undanfarin missiri og undanfarin ár um ábyrgð í íslenskum stjórnmálum, hver beri ábyrgð á vinnubrögðum af þessu tagi. Hver ber ábyrgð á því og hvernig ætla menn að axla ábyrgð á því að leggja fram frumvarp á þinginu þar sem gögnin sem allir útreikningarnir byggjast á, grundvallarforsendan, eru ónothæf til útreikninganna? Hvað gerir nefndin með allt það sem gerst hefur? Hún leggur til að dregið verði úr skattlagningunni um um það bil 10 milljarða en líklega er það ofmat hjá meiri hluta nefndarinnar, líklega mun þegar upp verður staðið verða innheimt gjald sem er hærra en 15 milljarðar. Um það eru að minnsta kosti margir umsagnaraðilar sammála.

Ég kannast ekki við að nokkur úr ríkisstjórninni, sérstaklega ekki sá sem tefldi málinu fram, hafi farið upp í þennan ræðustól og beðist afsökunar á þessum alvarlegu mistökum. Það eru ekkert annað en afglöp í starfi að leggja slíkt fyrir þjóðþingið eins og hér gerðist. Menn ættu að hafa þann manndóm í sér að koma hingað og biðjast afsökunar á þessum alvarlegu mistökum. Ekki á það síst við þegar horft er til þess að færustu sérfræðingar okkar, sömu sérfræðingar og ráðuneytið kallaði sér til ráðgjafar á síðustu metrunum við vinnu frumvarpsins, segja undir vinnu nefndarinnar að meiri hluti útgerðarinnar í landinu ráði ekki við gjaldið. Sú mynd blasir sem sagt við að sjávarútvegsráðherrann í landinu leggur til gjaldtöku á útgerðina í landinu sem mun setja stóran hluta útgerðarfyrirtækjanna rakleiðis og lóðbeint á hausinn. Veltum því aðeins fyrir okkur hvort ekki sé rétt við þær aðstæður að kalla að minnsta kosti eftir afsökunarbeiðni.

Það er að minnsta kosti hægt að rekja það af nefndaráliti og breytingartillögum hv. atvinnuveganefndar að meiri hlutinn hefur gert sér grein fyrir því að hér hefur allt of geyst verið farið, allt of djúpt seilst í vasa útgerðarinnar í landinu og miklar ranghugmyndir verið uppi um það hversu langt væri hægt að ganga. Ekki er það þó sagt berum orðum og ég hygg að meiri hlutanum hafi tekist nokkuð vel upp með að fóðra þá hugsun inn í svona loðið orðalag um nauðsyn á einstaka breytingartillögum en það býr ekkert annað þar að baki en vissan um að málið, eins og því var teflt fram í upphafi, gengur alls ekki upp.

Ég mun svo koma betur inn á það að ég tel að þrátt fyrir breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar sé frumvarpið enn stórgallað og það er allt mjög vel rakið í áliti 1. minni hluta. En hvers vegna gera menn þetta? Hvers vegna segir ríkisstjórnin í október að hún sjái fyrir sér 10 milljarða gjald á útgerðina næstu árin sem hóflegt gjald, sem nokkurs konar auðlindarentu, en nokkrum vikum síðar kemur til sögunnar 25 milljarðagjald? Skyldi það vera þetta hér? Skyldi það vera það sem menn kalla fjárfestingaráætlun og kynnt var á vordögum þessa þings? Skyldi það vera sú staðreynd að fram undan eru kosningar? Skyldi það vera löngunin til að fara að gera einhverja vinsæla hluti og ná sér í atkvæði hjá kjósendum? Skyldi það vera að menn hafi þurft að finna einhverja leið til að sjúga til ríkisins peninga til að fara í vinsælar framkvæmdir?

Það er erfitt að verjast þeirri hugsun þegar maður skoðar þá fjárfestingaráætlun sem kynnt var 18. maí síðastliðinn og skoðar hvernig hugmyndin er að fjármagna þær framkvæmdir sem þar eru kynntar til sögunnar. Fjármögnunin er kynnt sérstaklega á einni glærunni sem fylgdi fjárfestingaráætluninni. Þar eru þrír liðir: Sala banka og/eða arður frá bönkunum — um það er fullkomin óvissa. Auðlindasjóðurinn, sérstakt veiðileyfagjald — það er það sem við erum að tala um hér. Og síðan segir á þessari glæru að sérgreindum verkefnum sem fjármagna eigi með fiski og með bönkum verði haldið sérgreindum.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það sé fátt annað en þörfin fyrir að ráðast í uppbyggileg verkefni sem hafi knúið menn áfram í þessu máli. Hafi menn einhverjar efasemdir um það ætla ég að benda þeim á að meiri hluti atvinnuveganefndar leggur til að veiðigjaldið sem við ræðum hér verði reiknað út með alveg sérstakri aðferð næst eða í fyrsta sinn sem það leggst á en í framtíðinni verði síðan notuð önnur aðferð. Hver á þessi önnur aðferð að vera til framtíðar? Jú, hún á að vera sú að í framtíðinni á að styðjast við ráðgjöf frá nefnd sem á að koma hér á fót og ég hygg að hafi verið kölluð veiðigjaldsnefnd eða eitthvað álíka. Eftir að hún hefur verið skipuð fer af stað einhver vinna sem snýst um að finna út hver sé hin eiginlega auðlindarenta í atvinnugreininni. Hver er hún?

Þetta sýnir í fyrsta lagi að málið er algjörlega vanbúið til umræðu í þinginu vegna þess að þessa vinnu áttu menn að sjálfsögðu að vinna áður en frumvarpið kom fram, það er algjör grundvallarforsenda. Þetta sýnir í öðru lagi að gjaldið sem komið verður á í upphafi, með fastri krónutölu, á ekkert skylt við auðlindarentu nema þá að menn hafi verið svo heppnir að hitta akkúrat á krónutöluna sem endurspeglar auðlindarentuna. En hver trúir því í raun þegar gjaldið sem um er rætt sveiflast um tugi milljarða á milli vikna? Það trúir því auðvitað enginn maður.

Þegar menn búa svona um hnútana, að kasta fram einhverri hugmynd að krónutölu sem veiðigjaldi, fastri krónutölu á hvert þorskígildistonn, en segja svo um leið að í framtíðinni verði byggt á einhverju faglegu mati á raunverulegri auðlindarentu og koma síðan á sama tíma með sérstaka fjárfestingaráætlun inn í þingið og segja: Þetta er það sem við ætlum að gera á grundvelli þess að við erum að fara að innheimta í kringum 15 til 20 milljarða — þá sjáum við að hér býr ekkert annað að baki en pólitík, atkvæðakaup, örvænting í aðdraganda kosninga, hræðsla við kjósendur.

Þessi vinna, sem við ræðum hér, hefur ekkert með umræðuna um raunveruleg auðlindagjöld að gera, hún á ekkert skylt við þá vinnu sem unnin var árið 2000 og birtist í þessari álitsgerð auðlindanefndarinnar. Þetta á ekkert skylt við þá faglegu vinnu sem að jafnaði hefur verið grundvöllur að frumvörpum um breytingar á stjórn fiskveiða í landinu eða jafnmiklum stórmálum og því sem birtist í stórfelldri nýrri gjaldtöku á grundvallaratvinnugrein í landinu.

Allt þetta er meðal þeirra ástæðna sem við teflum fram í umræðunni. Menn segja að við í stjórnarandstöðunni stöndum hér í málþófi en ég treysti því að þeir sem hafa gefið sér tíma og lagt við hlustir í þessari umræðu sjái í gegnum þann áróður.

Stóra samhengi hlutanna hvað sjávarútveginn varðar er það að í dag er nokkuð breið samstaða um það á þinginu — ég hygg að enginn flokkur á Alþingi sé undanskilinn í því efni, allir þingmenn eru meira eða minna sammála um það — að það er svigrúm til aukinnar gjaldtöku vegna veiða við Íslandsstrendur, það er svigrúm til þess.

Það er algjör umpólun í samanburði við það sem var fyrir 15 árum, jafnvel fyrir 10 árum eða 20. Menn létu sig ekki dreyma um það fyrir 20 árum að orðið væri tímabært að huga að sérstakri gjaldtöku af sjávarútveginum vegna umframhagnaðar. Hver hefði leyft sér að viðra þá hugmynd á árunum 1980–1990? Hverjum hefði dottið það í hug?

Þá var meginreglan sú að bæjarútgerðirnar þurftu stöðugt aukinn stuðning frá útgjaldsgreiðendum í viðkomandi sveitarfélögum. Þá var mest rætt um það á þingi hvernig ríkið gæti stutt við sjávarbyggðirnar þannig að störfin mundu ekki hverfa, vegna þess að fyrirtækin voru öll meira eða minna rekin með halla. Og það er reyndar enn hinn dapri veruleiki flestra annarra þjóða en okkar Íslendinga.

Þetta stóra samhengi er gríðarlega mikilvægt að hafa með í umræðunni um þetta mál. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hvað það er sem hefur lagt grunninn að þeirri miklu breytingu sem orðið hefur á þessum tiltölulega skamma tíma frá því að mest var rætt um það í þessum sal hversu mikið væri réttlætanlegt að setja inn í greinina yfir í það að við tökumst nú á um hversu mikið sé hægt að taka út úr henni.

Kerfisbreytingar hafa orðið í greininni og hagræðing hefur náðst fram sem hefur skapað grundvöllinn að þessu. Hagræðing sem meðal annars náðist fram á grundvelli frjálsa framsalsins og þess að menn drógu stórlega úr afkastagetu flotans. Það kostaði miklar fórnir, það var meira eða minna allt fyrir séð, en það var nauðsynlegt og við höfum uppskorið árangur af því, ekki bara með því að ríkið og mörg sveitarfélög þurfa ekki lengur að styðja fjárhagslega við bakið á útgerðunum heldur líka með því, og kannski er það enn mikilvægara, að fyrirtækin hafa blómstrað, þau hafa getað greitt hærri laun og þau hafa getað endurfjárfest inn í greinina þannig að við höfum stöðugt verið að bæta tæknina og skila meiri arðsemi veiðanna. Fyrir hvern og einn Íslending er útgerðin að skila meiri hagnaði. Það eru okkar sameiginlegu heildarhagsmunir.

Það er því fráleitt að við séum að ræða það að bæta á útgerðina einhverjum tugum milljarða í nýja gjaldtöku, sem 1. minni hluti atvinnuveganefndar bendir réttilega á að er ekki gjald vegna þess að það kemur ekkert í staðinn frá ríkinu heldur skattur. Þetta er ekkert annað en nýr skattur. Það er fráleitt að ræða um slíkan skatt þegar í pípunum er annað frumvarp sem gjörbreytir umhverfi útgerðarinnar. Það er ekki hægt að ræða málin þannig.

Þetta skildi auðlindanefndin, þetta skildu þeir sem störfuðu í starfshóp um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, þetta hafa menn almennt skilið, þetta hafa verið almenn sannindi sem maður ætti ekki að þurfa að rekja. Það er fáránlegt að vera að taka það til umræðu að stórauka gjaldtöku á útgerðina í landinu þegar lög um stjórn fiskveiða, rekstrarlegt umhverfi útgerðarinnar, eru ekki einu sinni komin út úr nefnd. Það er fáránlegt.

Ég hef rakið hér starf auðlindanefndarinnar og starfshópsins, og hver aðdragandinn var að fyrri frumvörpum sem hafa breytt í grundvallaratriðum umhverfi sjávarútvegsins á Íslandi. Mig langar því að vekja athygli, þó ekki væri nema bara þingmanna Samfylkingarinnar, á því að þegar Evrópusambandið gerir breytingar á stjórn fiskveiða innan sinna vébanda þá er það gert þannig, og sú vinna stendur yfir, að menn leggja fram grænbækur og hvítbækur sem eru ræddar í þaula í þjóðríkjunum og á Evrópuþinginu, og á milli þingsins og framkvæmdastjórnarinnar, aftur og aftur og sendar út til hagsmunaaðila áður en þeir komast að niðurstöðu um næstu skref.

Þannig hefur fiskveiðistefna Evrópusambandsins verið í endurskoðun allt frá því að ríkisstjórn Íslands, og reyndar fyrir þann tíma, sótti um aðild að Evrópusambandinu. Þegar Íslendingar sóttu um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 var þá þegar hafin vinna við endurskoðun á fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Mig minnir að hún hafi farið af stað fyrir alvöru árið 2008. Enn er ekki komin niðurstaða í þá vinnu, hún er unnin af yfirvegun. Reyndar er Evrópusambandið slík málamiðlunarvél að það tekur upp undir áratug að gera breytingar. En mig langaði til að vekja athygli þeirra sem standa að þessu máli á því að sambandið sem þeir horfa til, Evrópusambandið, hefur annað verklag í þessum efnum.

Það eru fjölmörg atriði sem ástæða væri til að taka hér upp og ræða sérstaklega, sem er gert mjög vel í nefndaráliti 1. minni hluta. Ég hef minnst á að við erum í raun og veru að tala um skatt. Við erum, eins og bent er á í nefndarálitinu, að ræða frumvarp sem leiðir í íslenska löggjöf skattlagningu sem á sér enga hliðstæðu annars staðar. Það kemur jú að hluta til til vegna þess að annars staðar er auðlindarentan ekki slík að mikið svigrúm sé til gjaldtökunnar en engu að síður eru engin fordæmi fyrir máli af þessum toga.

Í nefndarálitinu er jafnframt bent á að fram hafi komið athugasemdir um að frumvarpið stæðist ekki stjórnarskrá. Ég hef áður nefnt útreikningana sem byggðir eru á tölum frá Hagstofunni og eru hugsaðir í allt öðrum tilgangi en þeim að vera grundvöllur að skattlagningu eða gjaldtöku.

Í nefndarálitinu er vikið að áliti Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar, sem starfa annars vegar við Háskóla Íslands og hins vegar við Háskólann á Akureyri, þar sem komið er inn á hvaða áhrif það muni hafa fyrir sjávarútvegsfyrirtækin að fara þessa leið. Það er ágætlega dregið fram í sérstakri fyrirsögn að ekkert fyrirtæki sé líklegt til að standa undir þeim álögum. Þar er verið að vísa til þess sem birtist í frumvarpinu að 53 af 75 fyrirtækjum ráða ekki við hækkunina. Við erum ekki að tala um að þeim þyki mikið í lagt. Nei, við erum að tala um að þau ráði ekki við hækkunina. Það þýðir að enginn hagnaður er eftir.

Ég gæti haldið áfram að nefna ýmsa ágalla sem svo vel eru raktir í nefndarálitinu og ég veit að nefndarmenn Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd hafa áður gert grein fyrir þeim. Ég ætla ekki að tína það allt til í smáatriðum en það að fyrirtækin ráði ekki einu sinni við gjaldtökuna er með slíkum ólíkindum að manni verður orða vant. Hvað eru menn að hugsa sem leggja slíkt til við þjóðþingið? Hvernig ætla menn að bera ábyrgð á slíkum hugmyndum? Hvernig ætla menn að bera ábyrgð á því að hafa lagt slíkt til? Hvar eru gagnrökin sem sýna fram á að einhverjir þessara útreikninga séu rangir? Það hefur nefnilega verið ágætlega rakið í nefndarálitinu sem ég hef vísað til, að engin gögn hafa verið unnin sem sýna fram á að þessir útreikningar séu rangir.

Eitt er það atriði sem mig langar til að nefna sérstaklega. Það er að með þessu veiðigjaldi virðist vera gengið út frá því að skynsamlegt sé að ríkið búi til einhvers konar fyrirmyndarsjávarútvegsfyrirtæki, að hægt sé að þvinga fram með löggjöf óskafyrirtæki ríkisstjórnarinnar sem starfar í sjávarútvegi. Þetta gerist með því að í frumvarpinu eru fyrirtækjum skammtaðir ákveðnir lykilþættir rekstrarins og þau eru síðan skattlögð í samræmi við það. Það er bara sagt sem svo: Það er hæfilegt að fyrirtækið sé með svo og svo mikinn fjármagnskostnað, það er ágætt að fyrirtæki sem starfar í sjávarútvegi sé með svo og svo mikla afskriftarþörf. Það er rétt að gera ráð fyrir því að framlegð þess sé svo og svo mikil og að rekstrarkostnaðurinn sé svo og svo hátt hlutfall af tekjunum. Þegar menn hafa gefið sér allar þessar forsendur hafa þeir fengið út einhverja meðaltalstölu og það er hún sem er síðan skattlögð í frumvarpinu.

Ég rakti það við 1. umr. þessa máls að þetta rifjaði upp ákveðna dæmisögu sem ég heyrði einu sinni, ég ætla ekki að rekja hana aftur hér. En við skulum ímynda okkur að við séum ekki að tala hér um sjávarútvegsfyrirtæki heldur heimilisrekstur. Þá væri ríkisstjórnin að mæla fyrir frumvarpi þar sem sagt væri: Já, það er hæfilegt að heimili sé rekið út frá raðhúsi sem er um það bil 170 fermetrar. Í 170 fermetra húsi er ágætt að það séu eins og tvö barnaherbergi. Og í húsi þar sem eru tvö barnaherbergi er mátulegt að keyptur sé inn matur fyrir svona 39 þús. kr. á mánuði. Og þar er líka ágætt að áskrift sé að annarri sjónvarpsstöðinni og hæfilegt að það sé einn bíll. Þegar við höfum gefið okkur alla þessa útgjaldaliði og miðum við meðallaun þeirra sem búa í slíku húsnæði, þá skulum við skattleggja það sem út af stendur með 70% skatti.

Yfir lengri tíma er vafalaust hægt, þó að það taki 100 ár, að búa þannig um hnútana að við endum öll í raðhúsi sem er að ósk ríkisstjórnarinnar. Þannig munu menn væntanlega yfir lengri tíma ná að móta öll útgerðarfyrirtækin í landinu með svona hugmyndafræði. En er það æskilegt? Er það líklegt til að hámarka afrakstur þjóðarinnar af útgerð við Íslandsstrendur? Ég er sannfærður um að svo er ekki. Og ég er líka sannfærður um að það er röng hugsun sem birtist í þessu frumvarpi, og birtist í öllu því sem ég var að rekja, sem er þessi: Sjávarútvegsfyrirtækjum er í raun og veru, samkvæmt þessu frumvarpi, bannað að fjárfesta í óskyldum rekstri. Það er verið að reyna að búa þannig um hnútana að í framtíðinni verði allur hagnaður sem myndast í greininni svo naumt skammtaður að það verði bara eitthvað eftir til að endurfjárfesta í greininni sjálfri.

Það hefur margoft verið fordæmt í þessum sal að menn skuli hafa leyft sér á umliðnum árum að fara með eitthvert rekstrarfé út úr sjávarútvegsfyrirtækjunum í óskyldan rekstur. Vissulega fóru menn fram úr sér þar í mörgum tilvikum en er eitthvert vit í að banna slíkt? Hníga einhver rök til þess að sjávarútvegsfyrirtækin í landinu séu einu fyrirtækin sem eiga að sæta einhverjum sérstökum hömlum þó að það birtist ekki nema með óbeinum hætti eins og í þessu frumvarpi? Það er auðvitað ekki nokkurt einasta vit í því.

En hvað leggur nefndin til? Nefndin leggur til að vegna þess að sum fyrirtæki hafi á undanförnum árum skuldsett sig, til dæmis vegna kaupa á aflaheimildum og reyndar sérstaklega vegna slíkra kaupa, eigi þau fyrirtæki að fá sérstaka ívilnun þegar kemur að greiðslu þessa gjalds. Taka eigi sérstakt tillit til þeirra sem skuldsettu sig til að kaupa aflaheimildir. Hvers vegna er sú breytingartillaga gerð? Jú, hún er til komin vegna athugasemda um að þau fyrirtæki muni fara lóðbeint á hausinn ef ekki verði tekið tillit til þessa. Það er verið að reyna að bjarga einhverjum þeirra frá gjaldþroti. Ég er ekki að segja að verið sé að reyna að tryggja greiðslu auðlindarentu í þessum tilvikum. Nei, það er bara verið að reyna að bjarga þessum fyrirtækjum frá gjaldþroti.

En hvers konar kerfi sitjum við þá uppi með ef þessi breytingartillaga nær fram að ganga? Þá blasir þessi veruleiki við: Þeir sem hafa skuldsett sig hressilega til að kaupa aflaheimildir á undanförnum árum eru í einhverjum vildarhópi ríkisstjórnarinnar og þurfa ekki að greiða sama gjald og aðrir. Hinir sem höfðu rekið fyrirtækin sín með varfærnari hætti, lagt til hliðar, lagt áherslu á að byggja upp eigið fé, forðast skuldsetningu, og keyptu aflaheimildir með eiginfjárframlagi borga fullan skatt. Það er refsað fyrir ráðdeildina. Og höfum í huga að við erum að tala hér um skatt, að skattur sé greiddur með ólíkum hætti þegar kemur að þessum sjónarmiðum. Þetta er alveg með ólíkindum að menn sjái ekki hvers konar veruleika verið er að bjóða upp á.

Þegar jafnharkaleg gagnrýni á frumvarpið og raun bar vitni birtist fyrir nokkrum vikum sagði sjávarútvegsráðherrann: Gott og vel. Það er gagnrýnt hversu hátt gjaldið er en það er að minnsta kosti komin sátt um það að fyrirtækin þola eitthvað meira og þess vegna verðum við að halda áfram með málið og klára það í þinginu. Þetta finnst mér vera dæmi um rökþrota ráðherra, ráðherra sem leggur af stað með frumvarp þar sem hugsunin er sú að taka auðlindarentu af einni atvinnugrein, að skattleggja umframhagnað, en endar svo með því að segja: Við erum að minnsta kosti sammála um að þeir geti borgað meira. Það er það eina sem stendur eftir. Og því miður er málið komið aftur hingað inn í þingið jafngallað og illa hugsað og ég hef rakið. (Forseti hringir.) Við verðum einfaldlega að vonast til þess að það fari aftur inn í nefnd og þessum atriðum verði kippt í liðinn eða málið dregið til baka.